Innlent

Rútubílstjóri fékk hjartaáfall undir stýri og lést

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn var úrskurðaður látinn á Landspítalanu en endurlífgunartilraunir höfðu verið reyndar á vettvangi án árangurs.
Maðurinn var úrskurðaður látinn á Landspítalanu en endurlífgunartilraunir höfðu verið reyndar á vettvangi án árangurs. Vísir
Rútubílstjóri á fimmtugsaldri lést í gær eftir að hann fékk hjartaáfall undir stýri þar sem hann var á ferð við Seljalandsfoss. Maðurinn ók lítilli rútu frá fyrirtækinu Kynnisferðum og voru 20 farþegar í bifreiðinni, 18 dönsk skólabörn og tveir fararstjórar.

Rútan fór tiltölulega rólega út af veginum þegar maðurinn veiktist og stöðvaðist þar en hún valt ekki, samkvæmt upplýsingum frá Oddi Árnasyni yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi. Tilkynning um slysið barst lögreglunni rétt fyrir klukkan 16.30 og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út um korteri síðar.

Þyrlan flutti manninn á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann var úrskurðaður látinn en endurlífgunartilraunir höfðu verið reyndar á vettvangi án árangurs.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni slasaðist enginn farþeganna en þeir voru fluttir á Heimaland sem er skóli skammt frá slysstað. Viðbragðsaðilar frá Rauða krossi Íslands voru ræstir út og komu læknar og hjúkrunarfræðingar á staðinn til að veita farþegunum áfallahjálp.

Kynnisferðir virkjuðu viðbragðsáætlun sína vegna slyssins og kom önnur rúta frá fyrirtækinu á staðinn og flutti hópinn til Reykjavíkur. Þar var þeim einnig boðin áfallahjálp samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×