Enski boltinn

Conte og Hazard bestir í október

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Chelsea vann alla fjóra leiki sína í ensku úrvalsdeildinni í október með markatölunni 11-0.

Það kom því lítið á óvart að besti knattspyrnustjóri og besti leikmaður október-mánaðar kæmu úr röðum Chelsea.

Antonio Conte var í dag valinn stjóri mánaðarins og Eden Hazard leikmaður mánaðarins.

Hinn 47 ára gamli Conte breytti um leikkerfi eftir 3-0 tap fyrir Arsenal og síðan þá hefur Chelsea unnið alla deildarleiki sína með markatölunni 16-0.

Jürgen Klopp hjá Liverpool, Mark Hughes hjá Stoke City og Arsene Wenger hjá Arsenal komu einnig til greina sem stjóri mánaðarins.

Hazard skoraði þrjú mörk og gaf eina stoðsendingu í leikjunum fjórum í október. Þetta er í fyrsta sinn sem hann er valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni.

Sex aðrir leikmenn komu greina sem leikmaður mánaðarins: N'Golo Kanté og Diego Costa hjá Chelsea, Ilkay Gündogan hjá Manchester City, Joe Allen hjá Stoke City, Philippe Coutinho hjá Liverpool og Tom Heaton hjá Burnley.

Dimitri Payet, leikmaður West Ham, skoraði mark mánaðarins. Það kom í 1-1 jafntefli West Ham og Middlesbrough.

Mark mánaðarins



Fleiri fréttir

Sjá meira


×