Innlent

Ísland enn á ný friðsælasta ríki heimsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ísland er friðsælt.
Ísland er friðsælt. Vísir/Vilhelm
Ísland trónir enn á ný á toppi lista Institute for Economics and Peace yfir friðsælustu ríki heims. Stofnunin hafa frá árinu 2007 gefið árlega út sérstaka friðarvísitölu. Ísland hefur verið efst á lista frá og með árinu 2011.

Vísitalan nefnist Global Peace Index og nær yfir 163 ríki heimsins og hún mælir m.a. hluti eins og þjóðfélagslegan óróa, glæpi, vopnakaup, þátttöku í stríðsrekstri og samskipti við nágrannaríki.

Í samantektinni er meðal annars litið til þess að á Íslandi er tiltölulega lág tíðni morða og ofbeldisglæpa, lítill hluti þjóðarinnar er fangelsaður og aðgengi að vopnum er ekki gott.

Danmörk vermir annað sætið og Austurríki er í þriðja en friðsamasta heimsálfa heimsins er Evrópa. Af tíu friðsælustu ríkjum heimsins eru sjö í Evrópu. Tekið er fram í skýrslunni að það sem friðsælustu ríki heims eigi helst sameiginlegt er að þau eru tiltölulega lítil, stöðug og lýðræðisríki.

Samkvæmt vísitölunni er bilið að aukast hratt á milli friðsælustu ríkja heimsins og þeirra sem ófriðsælli teljast. Ófriðsælasta ríki heims er Sýrland, fjórða árið í röð.

Sjá má gagnvirkt kort af vísitölunni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×