Viðskipti innlent

Fasteignamat hækkar um 20 prósent í Bústaðahverfi

Bjarki Ármannsson skrifar
Bústaðarkirkja í Reykjavík. Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis er mest í Bústaðarhverfinu.
Bústaðarkirkja í Reykjavík. Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis er mest í Bústaðarhverfinu.
Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,8 prósent og verður rúmlega sex þúsund milljarðar króna samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2017 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.

Fasteignamatið hækkar á 94,6 prósentum fasteigna. Heildarfasteignamat hækkar um 8,8 prósent á höfuðborgarsvæðinu, um 6,8 prósent á Suðurnesjum, 5,8 prósent á Vesturlandi, 6,9 prósent á Vestfjörðum, 0,2 prósent á Norðurlandi vestra, 5,7 prósent á Norðurlandi eystra, 5,6 prósent á Austurlandi og 4,8 prósent á Suðurlandi.

Nánari upplýsingar um nýtt fasteignamat verða birtar á vef Þjóðskrár síðar í dag en eigendur fasteigna munu frá 15. júní næstkomandi nálgast tilkynningarsepil um mat á eignum sínum á Ísland.is.

Samkvæmt tilkynningu frá Þjóðskrá er meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu 9,2 prósent en mikla hækkun má finna víða á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda hækkar matið í Bústaðarhverfi um 20,1 prósent og í Fellunum um 16,9 prósent.

Matið lækkar á þremur matssvæðum á höfuðborgarsvæðinu; um 0,8 prósent á Kjalarnesi, um 3,5 prósent í Garðabæ vestan Hraunholtsbrautar og um 4,1 prósent á Arnarnesi.

Fasteignamat utan höfuðborgarinnar hækkar mest í Vopnafjarðarhreppi, 12,1 prósent, og í Vesturbyggð, tólf prósent. Það lækkar hins vegar mest í Akrahreppi, um 4,8 prósent, og á Blönduósi, um 3,6 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×