Erlent

Enn slær í brýnu milli Kína og Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínversk J-10 flugvél á flugi.
Kínversk J-10 flugvél á flugi. Vísir/EPA
Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum segja kínverskri orrustuþotu hafa verið flogið að bandarískri flugvél með glæfralegum hætti yfir Kínahafi í gær. Atvikið mun hafa átt sér stað í alþjóðlegri lofthelgi þar sem tvær J-10 þotur flugu að RC-135 flugvél Bandaríkjanna.

Í tilkynningu frá Bandaríkjunum segir að annarri kínversku flugvélinni hafi verið flogið of hratt að flugvél Bandaríkjanna. Engin ögrun hafi átt sér stað og að atvikið virðist vera dæmi um ófaglega hegðun flugmanna.

Kínverjar segjast hafa fengið kvörtun frá Bandaríkjunum en í yfirlýsingu til Reuters segja þeir að Bandaríkin séu vísvitandi að reyna að gera mikið úr atvikinu. Bendar þeir á að um eftirlitsflugvél Bandaríkjanna hafi verið að ræða og hún hafi verið notuð til að fylgjast með Kína.

Ennfremur segir að kínverskir flugmenn fylgi lögum og reglum. Þeir starfi með ábyrgum og faglegum hætti.

Hér má sjá til hvaða hafssvæðis Kína gerir tilkall til.Vísir/GRaphicNews
Yfirvöld Bandaríkjanna tilkynntu í síðasta mánuði að tveimur kínverskum orrustuþotum hefði verið flogið í innan við 15 metra fjarlægð frá eftirlitsflugvél þeirra yfir Kínahafi, þar sem Kínverjar hafa gert tilkall til umfangsmikils svæðis í trássi við nágranna sína.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í vikunni að Bandaríkin myndu setja sig gegn öllum tilraunum Kínverja til að stofna loftvarnarsvæði yfir Suður-Kínahafi, eins og þeir gerðu í Austur-Kínahafi árið 2013.

Kína hefur gert tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs en Filippseyjar, Víetnam, Malasía, Taívan og Brúnei hafa eining gert tilkall til svæðisins. Kínverjar hafa byggt upp fjölda manngerðra eyja á hafsvæðinu og komið fyrir þar flugvöllum, vopnum og margvíslegum búnaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×