Fótbolti

Stelpurnar komast ekki á EM með sigri í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar okkar í kvennalandsliðinu í fótbolta mæta Makedóníu í sjötta leik liðsins í undankeppni EM 2017 á Laugardalsvelli í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Umræðan hefur verið þannig að farseðilinn kvennaliðsins á EM 2017 í Hollandi verði tryggður með sigri í kvöld en svo er ekki. Frá þessu er greint á heimasíðu KSÍ.

Efsta þjóðin í hverjum riðli tryggir sér farseðilinn beint á Evrópumótið í Hollandi ásamt sex af átta liðum sem hafna í öðru sæti. Þær tvær þjóðir sem eftir verða í öðru sæti mætast í umspilsleikjum um sæti á EM.

Þegar reiknað er út hvaða þjóðir eru með bestan árangur í öðru sæti eru bara teknir með í reikninginn leikir gegn þjóðunum í fyrsta, þriðja og fjórða sæti.  Leikir gegn neðsta liðinu í riðlinum eru því ekki teknir inn í jöfnuna.

Ísland er í frábærri stöðu í riðlinum eftir glæsilegan sigur á Skotum í síðustu viku. Stelpurnar okkar eru með 15 stig af 15 mögulegum, 21 mark skorað og ekkert fengið á sig.

Stelpurnar okkar verða með 18 stig vinnist sigur á Makedóníu í kvöld og verða þá tveir leikir eftir. Bíða þarf eftir úrslitum leikjum í öðrum riðlum til að endanlega sé hægt að bóka stelpurnar til Hollands en það verður ekki í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×