Erlent

Forbes birtir listann sinn yfir 100 valdamestu konur heims

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Angela Merkel er kanslari Þýskalands.
Angela Merkel er kanslari Þýskalands. Vísir/EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var valin valdamesta konan tíunda árið í röð af tímaritinu Forbes. Hinn árlegi listi var kunngjörður í dag. Athygli vakti að engin kona úr skemmtanabransanum komst á listann þetta árið.  

Á listanum eru fleiri kvenkyns leiðtogar en áður en það helst í hendur við fjölgun þeirra á heimsvísu. Umsjónarmenn listans hjá Forbes fagna þessu en segja að það hafi það komið niður á fjölda heimsfrægra kvenna í skemmtanaiðnaðinum á listanum í ár. Þannig hverfa söngkonurnar Beyonce Knowles og Taylor Swift af listanum í ár.

Aðeins ein kona af Norðurlöndunum kemur fram á listanum en það er hin norska Kaci Kullman Five en hún er formaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar í Noregi. 

Efstu fimm sæti listans breytast ekkert ár frá ári en á eftir Merkel kemur Hillary Clinton. Allt stefnir í að Clinton verði forsetaefni Demókrata í Bandaríkjunum.

Þriðja valdamesta konan að mati Forbes er hagfræðingurinn Janet Yellen. Yellen gegnir stöðu formanns stjórnar bandaríska seðlabankans.

Melinda Gates er fjórða valdamesta kona heims. Ein stærstu góðgerðarsamtök heims, Bill and Melinda Gates Foundation, heita í höfuðið á henni og eiginmanni hennar, Bill Gates. Þau eru ein ríkustu hjón heims.

Í fimmta sæti er forstjóri bandaríska bílaframleiðandans General Motors, Mary Barra.

Hér má finna listann í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×