Erlent

John Oliver: „Farðu í rassgat, Oprah“

Samúel Karl Ólason skrifar
John Oliver gefur níu þúsund einstaklingum 15 milljónir.
John Oliver gefur níu þúsund einstaklingum 15 milljónir.
John Oliver, þáttastjórnandi Last Week Tonight, fjallaði í gær um innheimtufyrirtæki í Bandaríkjunum og starfsemi þeirra. Um er að ræða fyrirtæki sem kaupa ódýr skuldasöfn sem bankar og stofnanir hafa afskrifað og rukka þau.

Lánin eru oft á tíðum jafnvel fyrnd og ljóst er að fyrirtækin beita harkalegum aðferðum við innheimtuna.

Til að varpa ljósi á hve auðvelt það væri í rauninni að stofna innheimtufyrirtæki tók starfsfólk Last Week Tonight sig til og stofnaði slíkt fyrirtæki. Það var gert í gegnum internetið og kostaði 50 dali að skrá fyrirtækið í Mississippi.

Fyrirtækið var látið heita Central Asset Recovery Professionals og var sett upp smávægileg heimasíða. Skömmu seinna bauðst þeim að kaupa rúmlega 15 milljóna dala skuldir vegna læknakostnaðar frá Texas fyrir slikk.

John Oliver og félagar ákváðu að kaupa þessar skuldir og í stað þess að hringja í þá níu þúsund einstaklinga sem skulduðu þeim og reyna að rukka það, var ákveðið að gefa skuldirnar eftir. Um er að ræða stærstu gjöf sem hefur verið gefin í sjónvarpsþætti. Oprah gaf einu sinni áhorfendum sínum bíla og er það talið hafa kostað átta milljónir dala.

„Farðu í rassgat, Oprah,“ sagði John Oliver við lok þáttarins.

Last Week Tonight er sýndur á Stöð 2 á mánudagskvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×