Innlent

Mikill viðbúnaður vegna bílslyss í Hvalfjarðargöngunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins og sést hér fljúga frá vettvangi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins og sést hér fljúga frá vettvangi. Vísir/eyþór
Uppfært klukkan 15:35:  Fimm manns voru í bílunum tveimur samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni og voru þeir allir fluttir á slysadeild. Ekki liggja fyrir upplýsingar um líðan þeirra að svo stöddu. 

Uppfært klukkan 15:25:
 Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni skullu fólksbíll og jeppi saman í göngunum en bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt. 

Uppfært klukkan 15:02:
 Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu voru fjórir fluttir slasaðir á Landspítalann. Tveir bílar munu hafa skollið saman í göngunum. Allir viðbragðsaðilar eru farnir af vettvangi og hefur slökkviliðið á Akranesi tekið vettvanginn yfir. Göngin verða áfram lokuð og er vegfarendum beint um hjáleið um Hvalfjörð.

Uppfært klukkan 14:37:
 Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er byrjað að flytja slasaða á Landspítalann. Þó nokkuð margir eru slasaðir samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu en varðstjóri gat ekki gefið nákvæmari upplýsingar um hversu margir væru slasaðir eða hve alvarlega né hversu margir bílar hefðu verið í árekstrinum. Þá er þyrla Landhelgisgæslunnar farin af vettvangi og flutti hún að minnsta kosti einn á slysadeild. 

Hvalfjarðargöngunum var lokað vegna slyssins og verða þau lokuð í nokkurn tíma samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.vísir/eyþór
Uppfært klukkan 14.23: Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um alvarlegt bílslys í Hvafjarðargöngunum klukkan 13:55.

Búið er að loka göngunum í báðar áttir og er búist við því að vegurinn verði lokaður í nokkurn tíma. Hægt er að komast hjáleið um Hvalfjörð.

Fjöldi sjúkrabíla er nú á leið í Hvalfjarðargöngin en þar varð alvarlegt bílslys fyrir stundu. Þegar fréttastofa hafði samband við slökkviliðið vegna útkallsins gat varðstjóri ekki gefið nánari upplýsingar um slysið að svo stöddu. Búið er að loka göngunum vegna slyssins.

Greinilegt er að mikill viðbúnaður er vegna slyssins en í það minnsta fimm sjúkrabílar auk slökkviliðs og lögreglu eru á leið á staðinn. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×