Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu segir að Þorgerður Katrín hafi í morgun fundað með Andrí Sybíha, utanríkisráðherra Úkraínu, og frekari fundir séu fyrirhugaðir. Þá segir í yfirlýsingunni að ítarlegri fréttatilkynning verði send síðar í dag.
Fyrsti símafundur Þorgerðar Katrínar í embætti var við Andrí Sybíha en það var á gamlársdag. Þá ítrekaði hún stuðning Íslands við Úkraínu og ræddu þau samstarf ríkjanna á alþjóðavettvangi.

Sybíha hefur þakkað Þorgerði Katrínu fyrir heimsóknina og þakkað Íslendingum fyrir stuðning þeirra við Úkraínu. Hann nefnir einnig að þau hafi meðal annars talað um mögulegar fjárfestingar í hergagnaiðnaði Úkraínu og kornútflutningi ríkisins.
Welcomed my Icelandic colleague @thorgkatrin in Kyiv. I appreciate that her first foreign call and visit are to Ukraine. We discussed further cooperation, including investment in Ukraine’s defense industry and “Grain From Ukraine” program. I thank Iceland for its strong support. pic.twitter.com/FLAhGWhiKV
— Andrii Sybiha 🇺🇦 (@andrii_sybiha) January 7, 2025
Úkraínumenn og margir af bakhjörlum þeirra hafa lagt kapp á að styrkja hergagnaframleiðslu ríkisins þar sem búið er að ganga mjög á vopnabúr Evrópu og hergagnaverksmiðjur Evrópu hafa verið á yfirsnúningi.
Á sama tíma hefur Úkraína burði til að auka framleiðslu töluvert og hafa Danir vakið athygli með fordæmi þeirra í að styðja við bakið á Úkraínu á því sviði.