Viðskipti innlent

Endurheimtur ríkisins vegna bankahrunsins 76 milljarðar umfram kostnað

Birgir Olgeirsson skrifar
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiddu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þegar bankakerfið á Íslandi hrundi árið 2008.
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir leiddu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar þegar bankakerfið á Íslandi hrundi árið 2008. Vísir.
Endurheimtur ríkissjóðs umfram kostnað vegna hrunsins nema í heildina um 286 milljörðum króna að nafnverði sem jafngildir 76 milljörðum króna á verðlagi ársins 2015. Þetta kemur fram í skýrslu doktorarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson unnu fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Í skýrslunni er lagt mat á hreinan kostnað ríkissjóðs af falli viðskiptabankanna haustið 2008 og endurreisn banakerfisins í kjölfarið. Með hreinum kostnaði er átt við beinan útlagðan kostnað ríkissjóðs vegna falls bankanna að frádregnum tekjum og endurheimtum sem ríkissjóður hefur eða gæti haft af slitabúunum og aðkomu sinni að endurreisn bankakerfisins.

Meginniðurstaða mats þeirra Ásgeirs og Hersis er að endurheimtur ríkissjóðs gætu jafnvel orðið allnokkru meiri en beinn kostnaður sem ríkissjóður þurfti axla vegna falls bankakerfisins, eða sem svarar til á bilinu 55-75 milljörðum króna með þeirri matsaðferð sem beitt er í skýrslunni, eftir því hvort miðað er við kostnað og ábata á föstu verðlagi eða sem hlutfall af landsframleiðslu á hverjum tíma.

Mikilvæg forsenda í matinu er að sögn að unnt verði að selja eignarhluti ríkisins í viðskiptabönkunum á næstunni á gengi sem svarar til 100% af bókfærðu virði eigin fjár þeirra. Er vakin athygli á því í skýrslunni að matið tekur eingöngu til beinna fjárráðstafana ríkisins gagnvart fjármálakerfinu en ekki til margs konar óbeinna áhrifa af efnahagssamdrættinum sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins, svo sem mikið tekjuhrap og útgjaldaaukning meðal annars vegna atvinnuleysisbóta og vaxtakostnaðar af hallarekstri ríkissjóðs.

Samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2012 nam beinn heildarkostnaður ríkissjóðs vegna falls fjármálastofnana, án tillits til verðmætis yfirtekinna eigna, um 43 prósent af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2008 til 2011 og var sá næst mesti allra landa innan OECD á eftir Írlandi.

„Nú fimm árum seinna hefur þessi kostnaður verið endurheimtur og gott betur. Með endurheimtum af fjármögnun viðskiptabankanna og skattlagningu og stöðugleikaframlögum slitabúanna hefur ríkissjóður ekki aðeins endurheimt allan beinan kostnað vegna veðlánaviðskipta Seðlabankans, verðbréfalána ríkissjóðs, ríkisábyrgða, láns Seðlabankans til Kaupþings og falls sparisjóðanna heldur haft hreinan ábata umfram það sem nemur um 286 milljörðum króna á verðlagi hvers árs,“ segir í skýrslunni sem má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×