Innlent

Hatrammar deilur múslima um leigu á Ýmishúsi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Aðstandendur Menningarseturs múslima meinuðu lásasmiði aðgang að Ýmishúsinu í gærmorgun þegar Menningarsetrið var borið út að kröfu Stofnunar múslima, eigenda hússins.
Aðstandendur Menningarseturs múslima meinuðu lásasmiði aðgang að Ýmishúsinu í gærmorgun þegar Menningarsetrið var borið út að kröfu Stofnunar múslima, eigenda hússins. vísir/stefán
Menningarsetur múslima var borið út úr Ýmishúsinu við Skógarhlíð í gærmorgun og til átaka kom á milli aðstandenda Menningarsetursins og Stofnunar múslima.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um útburðinn 3. maí síðastliðinn.

Ýmishúsið er í eigu Stofnunar múslima og hefur Menningarsetrið verið þar til húsa síðastliðin ár. Deilur milli Menningarsetursins og Stofnunar múslima hafa staðið yfir um langt skeið, en Stofnun múslima heldur því fram að enginn samningur hafi verið í gildi um leigu á húsnæðinu við Skógarhlíð til Menningarsetursins og krafðist því útburðar.

Oddgeir Einarsson, lögmaður Menningarsetursins.Mynd/Aðsend
Menningarsetrið heldur því fram að Stofnun múslima hafi safnað styrktarfé með það að leiðarljósi að kaupa húsnæði undir starfsemi trúfélags múslima. Stofnun múslima er ekki trúfélag, en Menningarsetur múslima er annað tveggja trúfélaga íslam hér á landi. Aðstandendur Menningarsetursins vilja að fasteignin verði skráð undir nafni múslima á Íslandi.

Lögregla var viðstödd aðgerðirnar og kalla þurfti eftir liðsauka eftir að ráðist var á Karim Askari, fyrrverandi varaformann Menningarsetursins og núverandi framkvæmdastjóra Stofnunar múslima.

„Þetta var gróf líkamsárás sem átti sér stað á framkvæmdastjóra Stofnunar múslima, ráðist var á hann með steypustyrktarjárni,“ segir Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Stofnunar múslima. Árásarmaðurinn var handtekinn af lögreglu.

Menningarsetrið byggir á því að gerður hafi verið húsaleigusamningur þann 20. desember 2012 til tíu ára sem enn sé í gildi. Samkvæmt Stofnun múslima var gerður annar samningur, sem dagsettur er 21. desember sama ár, sem fellir þann fyrri úr gildi.

„Þeir byggja rétt á samningi sem Stofnun múslima telja vera drög að samningi en daginn eftir er gerður samningur sem víkur þeim eldri úr gildi,“ segir Gísli.

Aðstandendur Menningarsetursins telja síðari samninginn ekki vera samning í eðli sínu og að skjalið hafi ekki fellt úr gildi leigurétt Menningarsetursins á fullnægjandi hátt. Þá halda þeir því fram að skjalið hafi verið dagsett aftur í tímann og að undirskriftir hafi verið falsaðar. Héraðsdómur taldi það ekki sannað og féllst á kröfu Stofnunar múslima um útburð.

Samkvæmt Oddgeiri Einarssyni, lögmanni Menningarsetursins, hefur Stofnun múslima fengið niðurfellingu fasteignagjalda á grundvelli þess að Ýmishúsið sé í leigu til trúfélags og renni það stoðum undir það að leigusamningur hafi verið í gildi á milli félaganna tveggja.

Karim Askari segir að til standi að reka margþætta menningarstarfsemi og kennslu í Ýmishúsinu og að húsið verði opnað fyrir öllum þeim sem áhuga hafa á því að kynna sér íslam.

Úrskurði héraðsdóms hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. „Við erum að bíða eftir niðurstöðu Hæstaréttar. Báðir aðilar hafa skilað greinargerðum sínum og vænta má niðurstöðu á næstu dögum eða vikum,“ segir Oddgeir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní

Vísir/Stefán
Vísir/Stefán

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×