Fótbolti

Hannes: Ánægður í Noregi en sakna fjölskyldunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson fékk frí frá vináttulandsleik Íslands og Noregs ytra í dag en hann segist kominn á góðan skrið eftir langa fjarveru í vetur vegna axlarmeiðsla.

Hann fór úr axlarlið í október á síðasta ári og gekkst undir aðgerð vegna meiðslanna. Við tók fimm mánaða endurhæfing og kapphlaup við tímann um að vinna sér aftur sæti í íslenska landsliðinu fyrir EM í Frakklandi.

Það tókst en Hannes var lánaður frá liði sínu, NEC Nijmegen í Hollandi, til Bodö Glimt í Noregi þar sem hann hefur verið lykilmaður. Hann er ánægður með dvölina í Noregi.

„Fyrst þegar ég kom hingað var ég svo ánægður með að geta spilað á ný og æft aftur eftir fimm mánuði í endurhæfingu. Það hefur verið frábært að því leyti,“ sagði Hannes.

„Svo kom ég beint inn í byrjunarlið í norsku úrvalsdeildinni þar sem ég er lykilmaður og mikið stólað á mig.“

„En hin hliðin er svo að vera einn á hóteli á meðan að fjölskyldan er heima á Íslandi. En það er allt partur af þessu stóra verkefni. Maður brettir upp ermar og gerir allt sem maður getur til að vera klár fyrir EM í sumar.“

Hann segir leitt að hafa misst af leiknum í kvöld en skilji vel að hann þurfi á hvíldinni að halda eftir mikið leikjaálag síðustu vikurnar.

„Þetta hafa verið fimmtán leikir á rúmum tveimur mánuðum,“ segir Hannes sem er ekkert að velta fyrir sér axlarmeiðslunum lengur.

„Öxlin er í raun eins og ný. Það er allt í baksýnisspeglinum og nú horfir maður fram á veginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×