Erlent

Segja Íslamska ríkið fremja þjóðarmorð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jasídar flýja hryðjuverkamenn í Írak.
Jasídar flýja hryðjuverkamenn í Írak. Nordicphotos/AFP
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir í gær að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki fremji þjóðarmorð á jasídum í Írak og Sýrlandi. Þessu er lýst yfir í skýrslu sem gerð var opinber í gær. Í skýrslunni er varað við því að markmið samtakanna sé að gereyða jasídum og menningu þeirra.

Hryðjuverkasamtökin eru sögð sjá jasída sem djöfladýrkendur sem þurfi að drepa í nafni guðs eða hneppa í þrældóm. Mannréttindaráðið kallar eftir því að ríki heimsins leggi meira á sig til að hjálpa jasídum en um 3.200 þeirra eru nú í haldi samtakanna.

Áhlaup samtakanna á jasída hófst í ágúst 2014 þegar vígamenn samtakanna fóru á milli bæja jasída í Sinjarhéraði í Írak og söfnuðu saman fólki. Karlmenn yfir tólf ára aldri voru aðskildir frá kvenfólkinu og skotnir ef þeir neituðu að snúa baki við arfleifð sinni. Konurnar urðu oft vitni að morðunum áður en þær voru fluttar á yfirráðasvæði samtakanna í Sýrlandi þar sem meirihluti þeirra er enn í haldi. Í skýrslunni segir að þær hafi þurft að þola „ótrúlegan hrylling“. Þúsundir kvenna og stúlkna allt niður í níu ára aldur hafa verið seldar á þrælamörkuðum eða verið gefnar vígamönnum samtakanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×