Aldís var flutt til í starfi í janúar síðastliðnum og mun hún hafa leitað til lögfræðings vegna þess.
Tilfærsla Aldísar kom til á sama tíma og tveir starfsmenn fíkniefnadeildarinnar sættu rannsókn annars vegar ríkissaksóknara og hins vegar héraðssaksóknara vegna gruns um brot í starfi. Þeir voru báðir leystir frá störfum á meðan rannsókn á málunum fór fram.

Ráðið hefur verið í stöðu Aldísar og ekki eru fleiri breytingar í farvatninu hjá embættinu segir í skriflegu svari upplýsingafulltrúa lögreglunnar til RÚV. Aldís ku enn vera fjarverandi úr starfi og að ekki liggi fyrir hvenær hún snúi aftur.
Aldís kvartaði við innanríkisráðherra yfir framkomu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, stuttu áður en hún var færð til í starfi. Lögregla hafnar því að sú kvörtun hafi tengst tilfærslu Aldísar í starfi.