Lífið

Dýrmætt að grípa tækifærin

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Greta hefur nóg að gera á nýjum stað. Hún fluttist til Djúpavogs í haust þar sem hún kennir, þjálfar og nýtur lífsins.
Greta hefur nóg að gera á nýjum stað. Hún fluttist til Djúpavogs í haust þar sem hún kennir, þjálfar og nýtur lífsins.
Síðastliðið sumar sótti William Óðinn Lefever, kærasti Gretu Mjallar Samúelsdóttur, tónlistarkonu, fjölmiðlafræðings og fyrrverandi landsliðskonu í fótbolta um starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Djúpavogshrepps og framkvæmdastjóra Ungmennafélagsins Neista. Starfið fékk hann og var það kveikjan að því að fjölskyldan litla flutti austur.

„Flutningarnir voru ekki ákveðnir með löngum fyrirvara, við sáum auglýsinguna um starfið í júlílok, meltum þetta yfir verslunarmannahelgina og svo í lok ágúst vorum við búin að ákveða að flytja,“ segir Greta Mjöll en hún var á þeim tíma að klára fæðingarorlof þannig að þá var farið í að finna eitthvað fyrir hana að gera á Djúpavogi. Þá kom í ljós að það vantaði íþróttakennara og þjálfara á staðinn. „Ég verandi með þessa reynslu af íþróttum taldi mig alveg geta leyst það af hendi. Ég hef því kennt öllum börnunum íþróttir í vetur og þjálfað nánast öll þeirra líka í Neista og hefur það verið ótrúlega skemmtileg reynsla.“

Óðinn og Greta fluttu ásamt dóttur sinni Regínu á Djúpavog síðastliðið haust. Þar líður þeim vel og bæjarbúar hafa boðið þau velkomin.
Tilbúin að prófa nýja hluti

Greta segir það vera heilmikið mál að flytja svona langt, að rífa fjölskylduna upp með rótum og taka þetta skref. „Margir í fjölskyldunni hans Óðins hafa prófað að flytja út á land úr borginni og hafa borið því vel söguna. Við höfðum rætt þetta og velt þessu fyrir okkur um nokkurt skeið. Sérstaklega eftir að við eignuðumst litlu Regínu,“ útskýrir Greta og heldur áfram.

„Það tala allir um að tíminn þegar börnin eru lítil fljúgi áfram og ég var ekki tilbúin að leyfa honum að fljúga frá mér. En ég skil vel af hverju hann gerir það. Það eiga allir að vera að gera "allt" og það helst á nákvæmlega sama tíma. Þegar þú ert að hefja feril þá áttu helst líka að stofna fyrirtæki, skrifa bók, eignast öll börnin þín og vera fullkomin á meðan. Þessi hönnun er hálf skrítin finnst mér stundum. Við ættum í raun að byrja að eignast börn um fimmtugt. Þá eru allir komnir í svo gott jafnvægi,“ segir hún hugsi og bætir við að henni finnist pressan um að gera þetta allt saman á sama tíma of mikil.

„Ég var bara ekki til í þetta. Ég horfði á þetta þannig að með því að flytja hingað væri ég kannski að ýta hlutum aðeins til hliðar og myndi ná að njóta dóttur minnar. Svo er maður náttúrlega bara á fullu hér og hef sjaldan verið jafn upptekin. En samt á góðan hátt, mér finnst ég vera að njóta Regínu og tímans með henni. Svo get ég bara skrifað bók seinna,“ segir Greta brosandi.

Þó það sé ekki mikið að gerast í tónlistinni núna hjá Gretu eru hún og Óðinn, kærastinn hennar, komin í hljómsveit á Djúpavogi. MYND/ANTON BJARNI ALFREÐSSON
Besta hlutverkið

Regína Anna Lefever dóttir Gretu er sextán mánaða og segir Greta aðspurð um móðurhlutverkið að klisjan um það sé sönn. „Þetta er bæði það besta og erfiðasta sem ég hef gert. Þetta er dásamlegt og ég hefði aldrei getað trúað því að maður gæti verið með einstakling svona hrikalega mikið á heilanum. Ég er alveg orðin mamman sem stoppar samtalið og segir „sjáðu hvað hún er fyndin, hún er með tunguna úti! Og sendir öllum það svo á snapchat,“ segir hún og hlær dátt.

Greta bætti ekki aðeins við sig móðurtitlinum í fyrra heldur skreytti hún sig líka með móðursysturtitlinum þegar systir hennar, Hólmfríður, eignaðist sitt fyrsta barn í lok desember. „Já, við náðum að verða mömmur á sama árinu og mamma og pabbi urðu tvöföld amma og afi á einu ári. Það hefði verið gott að vera nær í lok meðgöngu systur minnar og fyrstu mánuði dóttur hennar. Mér finnst það kannski það erfiðasta við að vera svona langt í burtu að mér finnst ég stundum missa af hinu og þessu í fjölskyldunni. Þá minni ég mig á að þegar ég bjó í Boston þá missti ég af matarboðum, afmælum og fleiru en á sama tíma fékk maður betri stundir og meiri tíma þegar fjölskyldan kom í heimsókn eða ég heimsótti. Við fáum fjölskyldur og vini til okkar hingað á Djúpavog, allir gista, eru saman, borða morgunmat, hádegismat og kvöldmat saman í stað þess að hittast í klukkutíma matarboði í bænum. Þetta er öðruvísi samvera, hún er sjaldnar en hún er meiri. Og svei mér þá ef hún verður ekki bara betri“.

Greta þurfti að hætta í fótbolta vegna meiðsla en Breiðablik varð bikarmeistari haustið sem hún hætti og Greta var valin aftur í landsliðið þannig að hún var á góðum stað þegar hún þurfti að kveðja boltann.
Fótboltinn gaf mikið

Á árunum 2009 til 2013 bjó Greta í Boston í Bandaríkjunum þar sem hún var í háskólanámi en hún fékk fullan styrk til námsins í gegnum fótboltann. „Óðinn bjó þar með mér síðustu tvö árin. Mér finnst það dýrmæt reynsla að hafa búið úti og kann betur að meta Ísland vegna þess. Mér finnst það svipað með búsetuna úti á landi, til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hvar maður vill búa verður maður að prófa sem flest.“

Greta þurfti að hætta í fótboltanum fyrr en hún hefði viljað en hún lenti í erfiðum meiðslum. „Ég sleit krossband og reif liðþófa þrisvar í framhaldinu, fór í fjórar aðgerðir á hné og var komin upp í fimm heilahristinga þegar ég ákvað að hætta. Þá var ég búin að fá fyrirmæli frá sérfræðingi um að ég mætti ekki fá annað högg og þurfti að spyrja mig hvort þetta væri þess virði. Ég tók því ákvörðun um að hætta á þeim tímapunkti þar sem ég gat enn farið út að leika við börnin mín í framtíðinni, farið í fjallgöngur og jafnvel stundað einhverja líkamsrækt frekar en að klára mig alveg. Við urðum bikarmeistarar haustið sem ég hætti og ég var valin aftur í landsliðið þannig að ég var á góðum stað þegar ég hætti. Ég var óheppin en samt heppin því fótboltinn gaf mér svo ofsalega margt, vini fyrir lífstíð, ógleymanleg ferðalög um allan heim og kost á því að geta menntað mig.“



Greta á sviði í undankeppni Eurovision árið 2014 þegar hún söng lagið Eftir eitt lag.
Lét drauma rætast

Það er þó líf eftir fótboltann því Greta hefur haft í nógu að snúast síðan hún hætti. „Þegar ég hætti spurðu margir hvort ég væri ólétt eða væri að reyna að verða það. Ég svaraði þá að það væri nú margt annað sem 26 ára gömul kona gæti gert annað en að verða ólétt. Og það var enn margt sem mig langaði að gera áður en það tæki við. Til dæmis að taka þátt í undankeppni Eurovision sem ég gerði fljótlega eftir að ég hætti í boltanum. Svo fórum við Óðinn í bakpokaferðalag um Mið-Ameríku. Okkur hafði alltaf langað að gera það áður en við eignuðumst börn. Síðan eignuðumst við barn og lífið hélt líka áfram eftir það. Það virðist vera algengur misskilningur að fólki finnist það þurfa að gera allt áður en það eignast barn, eins og lífið endi þá. Það er ekki alveg þannig, það breytist en endar ekki.“

Máli sínu til stuðnings segir Greta þau hjónaleysin vera komin í hljómsveit á Djúpavogi. „Þetta er svolítið þannig hér á Djúpavogi, tækifærin eru óteljandi. Við fluttum og komum okkur inn í störfin okkar, svo var ég allt í einu komin með þrektíma fyrir fullorðna, Óðinn í slökkvilið og við saman í hljómsveit. Hér er svo margt hægt að gera, mörg tækifæri og mér finnst svo dýrmætt að geta gripið þau,“ segir Greta ánægð.

Stolt við útskriftina úr háskóla með foreldrum sínum, Ástu B. Gunnlaugsdóttur og Samúel Erni Erlingssyni.
Tónlistin fer ekkert

Fyrir utan að vera komin í landsbyggðarhljómsveit segir Greta ekki mikið vera í gangi í tónlistinni hjá henni þessa stundina. „Við í SamSam gáfum út plötu og héldum útgáfutónleika þegar ég var komin þrjátíu vikur á leið. Það var svolítill hápunktur að ná plötunni og jafnvel fallegur endir, fjórir meðlimir hljómsveitarinnar eignuðust til dæmis börn síðasta árið og nóg að gera í öðrum verkefnum. En tónlistin hættir ekkert, ég hef haldið mér við þó ég hafi ekki gefið neitt út síðan ég kom hingað á Djúpavog. Þetta er svolítið breytt núna, ég er meira í því að syngja vögguvísur á kvöldin. Svo syng ég í einstaka brúðkaupum, mér finnst það með því skemmtilegra því þar er svo mikil gleði.“

Óákveðin framtíð

Greta segir aðspurð um framtíðina að hún sé ekki mikið plönuð. „Við tókum ákvörðun um að flytja hingað og gefa okkur allavega ár. Að sama skapi hefðum við ekki tekið svona stóra ákvörðun og flutt svona langt nema til þess að vera hér í svolítinn tíma. Það er í raun bara ekkert plan hjá okkur. Við erum almennt ekki á neinni hraðferð í lífinu. Núna er ég bara hér og líður vel og hér vil ég vera áfram á meðan mér líður þannig,“ segir hún og brosir sínu bjarta brosi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×