Íslensku leikmennirnir Matthías Vilhjálmsson og Hólmar Örn Eyjólfsson voru báðir á skotskónum þegar Rosenborg vann stórsigur á Verdal í æfingaleik í dag.
Rosenborg vann Verdal 5-0 eftir að hafa verið 1-0 yfir í hálfleik. Matthías Vilhjálmsson og Hólmar Örn Eyjólfsson byrjuðu báðir á bekknum í leiknum en þeir létu til sín taka þegar þeir komu inná völlinn.
Matthías Vilhjálmsson skoraði tvö mörk í leiknum en Hólmar Örn Eyjólfsson gerði eitt. Matthías kom Rosenborg í 3-0 á 69. mínútu og innsiglaði síðan sigurinn með fimmta markinu á 87. mínútu. Hólmar Örn kom Rosenborg í 4-0 á 70. mínútu leiksins.
Verdal heldur upp á hundrað ára afmæli félagsins í ár og var þessi leikur settur á í tilefni af því. Íslensku strákarnir færði félaginu þó engar afmælisgjafir með sínum þremur mörkum.
Norska úrvalsdeildin liggur niðri á meðan Evrópumótið stendur yfir en margir leikmenn norsku félaganna eru meðal annars uppteknir með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi.
Fótbolti