Fótbolti

Lars: Ber þessi úrslit saman við 5-0 sigurinn 2004

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck hafði ekki tapað fyrsta leik á stórmóti síðan 2000 eða á fimm stórmótum í röð sem þjálfari og byrjaði ekki á því í gærkvöldi þegar strákarnir okkar náðu jafnteflinu gegn Portúgal á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Étienne í gær.

Svíinn var eðlilega hress og kátur en þó, eins og alltaf, með fæturnar á jörðinni þegar hann ræddi við blaðamenn á æfingasvæði íslenska liðsins í Annecy í dag. Hann var eðlilega kátur með frammistöðu strákanna.

„Þú getur kallað þetta að vera stoltur. Við bjuggumst við þessu af leikmönnunum. Ég er mjög ánægður með hvernig þeir spiluðu leikinn og hversu mikið þeir lögðu sig fram og héldu skipulagi. Þetta var ekki fullkomið en nokkuð gott þannig ég var mjög sáttur,“ sagði Lars við íþróttadeild á æfingu íslenska liðsins í dag.

8.000 Íslendingar voru á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Étienne í gærkvöldi og studdu vel við bakið á liðinu. Lars gat ekki hrósað þeim nóg.

„Stuðningurinn var algjörlega frábær. Þetta er ekki bara í fyrsta skipti liðsins á stórmóti heldur stuðningsmannanna líka. Stuðningurinn var alveg magnaður. Ég gef þeim allt það hrós sem ég get gefið,“ sagði Lars.

Lars er á sínu sjöunda stórmóti en áður stýrði hann Svíum á fimm stórmótum og Nígeríu síðast á HM 2014. Hann tapaði í fyrsta leik með Svíana á EM 2000 gegn Belgíu en síðan þá hefur hann ekki tapað í fyrsta leik. Tölfræðin: tveir sigrar og þrjú jafntefli með Svíþjóð, Nígeríu og Ísland. En hvar eru þessi úrslit á listanum hjá honum?

„Ef ég á að bera þetta saman við eitthvað myndi ég segja þegar við spiluðum við Búlgaríu 2004 og unnum 5-0. Að fá svona byrjun gegn einu besta liðinu í mótinu er auðvitað algjörlega frábært.“

Allt viðtalið má sjá hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×