Fótbolti

Svisslendingar náðu ekki að tryggja sig áfram en eru í fínum málum | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sviss og Rúmenía gerðu 1-1 jafntefli í öðrum leik sínum í A-riðli á Evrópumótinu í fótbolta í Frakklandi.

Svisslendingar gátu tryggt sér sæti í sextán liða úrslitunum með sigri en svissnesku leikmönnunum gekk illa að nýta færin sín í leiknum.

Sviss er með fjögur stig en Rúmenar voru þarna að ná í sitt fyrsta stig eftir tap á móti gestgjöfum Frakka í fyrsta leiknum sínum.

Bogdan Stancu kom Rúmenum yfir í fyrri hálfleik með sínu öðru marki á Evrópumótinu en Admir Mehmedi jafnaði fyrir Sviss í seinni hálfleiknum.

Svissneska liðið var sterkara liðið og fékk mun fleiri færi í þessum leik. Rúmenarnir ógnuðu þó inn á milli og gátu vissulega skorað fleiri mörk.  

Bogdan Stancu skoraði markið sitt úr vítaspyrnu á 18. mínútu sem var dæmt á fyrirliðann Stephan Lichtsteiner fyrir peysutog. Bogdan Stancu er fyrstur til að skora tvö mörk á mótinu en hann hefur skorað þau bæði úr vítum.

Svisslendingar náðu ekki að jafna fyrr en á 57. mínútu þegar boltinn datt fyrir Admir Mehmedi í teignum eftir hornspyrnu. Mehmedi hikaði ekki og náðu frábæru skoti í fjærhornið.

Það þarf mikið að gerast til að þessi fjögur stig dugi Sviss ekki til að komast upp úr riðlinum en lokaleikur liðsins er reyndar á móti Frökkum.

Frakkar mæta Albaníu í lokaleik dagsins og geta alveg eins og Svisslendingar tryggt sér sæti í sextán liða úrslitunum með sigri.

Bogdan Stancu kemur Rúmeníu í 1-0 Admir Mehmedi jafnar fyrir Sviss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×