Viðskipti innlent

Grikkjum fórnað svo aðrir lærðu lexíu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
James K. Galbraith er mjög gagnrýninn á Evrópusambandið og telur hættu á að það gliðni í sundur.
James K. Galbraith er mjög gagnrýninn á Evrópusambandið og telur hættu á að það gliðni í sundur. Fréttablaðið/Anton
Hagfræðingurinn James Galbraith var efnahagsráðgjafi Yanis Var­oufakis þegar hann var fjármálaráðherra grísku ríkisstjórnarinnar á fyrri helmingi ársins 2015. Hann starfar nú við Háskólann í Austin í Texas og hefur skrifað bókina Velkomin í hinn eitraða kaleik, sem fjallar um ástandið í Grikklandi. Galbraith segir stöðuna í Grikklandi vera mjög niðurdrepandi. Þar séu ríkiseignir og einkaeignir seldar á brunaútsölum, fyrirtæki séu knúin í gjaldþrot og verulega þrengt að almenningi.

„Þú ert með ríkisstjórn sem er bara að hrinda í framkvæmd ákvörðunum sem kröfuhafar hafa tekið, ákvörðunum sem hafa verið teknar af æðstu ráðamönnum Evrópusambandsins, ráðamönnum í Þýskalandi og hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,“ segir Galbraith. Hann segir að til þess að finna varanlega lausn á málum Grikkja verði að eiga sér stað stefnubreyting hjá Evrópusambandinu. „Eina leiðin til að það geti gerst er að breyting verði á afstöðu aðildarríkjanna,“ segir Galbraith en bætir því við að það sé mjög óljóst á þessum tíma hvaða stefna verði tekin.

Ráðaleysi innan ESB

Galbraith segir stofnanir Evrópusambandsins og stjórn þess vera veika og því sé líklegra að Evrópusambandið gliðni í sundur en að þar verði uppbygging. „Núverandi staða gengur ekki upp til lengdar. Það er andstaða alls staðar,“ segir Gal­braith. En hann segir að næstu skref muni ráðast af niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi, sem fram fer 23. júní. „Svo held ég að þróun stjórnmála í Frakklandi muni skipta máli. Forsetakosningarnar þar munu augljóslega hafa áhrif. Kosningarnar á Spáni í júní gætu haft einhver áhrif. Svo er spurningin með þróun mála annars staðar,“ segir Galbraith. Hann bendir á að fleiri atriði skipti máli fyrir þróun Evrópusambandsins. Til dæmis hafi Finnland nýlega gengið inn í evrusamstarfið en sé í vandræðum í framhaldinu. „Öll vandamál sem koma upp munu hafa áhrif á þróun mála,“ segir Galbraith. Það snúist ekki bara um efnahagsmál heldur muni til dæmis flóttamannamálin skipta máli fyrir þróun ESB.

Hagfræðingurinn treystir sér ekki til að spá fyrir um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi. „En ef niðurstaðan verður sú að Bretland á að fara úr Evrópusambandinu munu afleiðingarnar koma í ljós yfir tíma. Það verða samningaviðræður í framhaldinu,“ segir hann. Hann segir að það verði þó nokkrar mjög dramatískar breytingar. Til dæmis verði tekin upp landamæri aftur milli Bretlands og Írlands. „Þetta eru afleiðingar sem fólk er ekki að hugsa mikið um,“ segir hann.

Hann segir að niðurstaðan geti haft veruleg áhrif á Evrópusambandið en líka fyrir Bretland. „Skotar munu greiða atkvæði með áframhaldandi aðild. Ef Englendingar greiða atkvæði með úrsögn þá er þetta farið að snúast um framtíð breska konungsveldisins. Öll framtíð Bretlands er að veði,“ segir hann og bætir því við að bæði Evrópusambandið og Bretland gætu hreinlega liðast í sundur. „Ég veit ekki að hve miklu leyti atburðarrásin í Grikklandi hefur haft áhrif á þær aðstæður sem eru komnar upp í Bretlandi. En andrúmsloftið í allri Evrópu hefur súrnað eftir að það hefur orðið almennt viðurkennt að Grikkjum var fórnað svo hægt væri að kenna öðrum þjóðum lexíu; Portúgölum, Spánverjum, Írum og Frökkum. Fólk bregst illa við því sem er mjög eðlilegt,“ segir Galbraith.

Vill lýðræðislegra ESB

Galbraith segir að Grikkir hafi haft rétt fyrir sér og verið með raunhæfar áætlanir í efnahagsmálum. „Þeir voru raunsæir og báðu um raunsæ viðbrögð frá Evrópusambandinu. En þeir fengu einfaldlega höfnun. Grikkir mættu algjörri þrjósku og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn höfnuðu öllum tilboðum um samkomulag. Líka fjármálaráðherrar evruríkjanna. Öllum dyrum var lokað á Grikki,“ segir hann.

Galbraith segir að til þess að ásættanlegri árangur geti náðst þurfi að koma til þrýstingur víðar að en frá grísku ríkisstjórninni. Það þarf að koma meiri þrýstingur frá Grikkjum sjálfum en líka annars staðar frá úr Evrópu. „Það er það sem Yanis Varoufakis er að reyna að gera með hreyfingunni Demo­cracy in Europe,“ segir Galbraith. En þessa umræddu hreyfingu stofnaði Varoufakis til að auka lýðræðið í Evrópusambandinu. „Hann er að reyna að sameina öfl í Evrópu og sannfæra þau öfl um að það þurfi að grípa til aðgerða til þess að gera breytingar í Evrópusambandinu.“

Fylgdist með atburðum hér

Líkt og margir aðrir hagfræðingar fylgdist Galbraith með þeim efnahagslega hamförum sem áttu sér stað hér. Hann segist þó ekki vilja tjá sig mikið um það sem gerðist.

„Ég hef sem hagfræðingur eina reglu og ég veit að hún er óvenjuleg á meðal hagfræðinga. En það er að reyna að ráðleggja ekki í löndum þar sem ég hef dvalið í minna en 48 klukkustundir,“ segir Galbraith.

Hann hafi þó fylgst mjög vel með hér. „Á hápunkti kreppunnar leit þetta auðvitað þannig út að Ísland myndi einfaldlega hverfa. Að það sem gerðist í Grikklandi myndi líka gerast hér,“ segir hann og bætir við að það hafi verið gæfa Íslendinga að hafa ekki tekið á sig erlendar skuldir fjármálafyrirtækja. Það, sjálfstæður gjaldmiðill sem lækkaði í verði og fjármagnshöft hafi verið grunnurinn að því að ná efnahagslegum stöðugleika að nýju.

„Það var líka mikilvægt að lögsækja bankamennina. Þegar bankamenn fremja glæpi ætti að gilda sömu lög um þá og aðra. Þetta er eitthvað sem var ekki gert í Bandaríkjunum í kjölfar þessarar kreppu. Að því leytinu til er Ísland mikilvægt fordæmi fyrir alla,“ segir hann.

Galbraith hefur verið ákaflega gagnrýninn á það hvernig Bandaríkjamenn tóku á efnahagssamdrættinum 2007-2008. Hann segir það hafa verið afar neikvætt að fjármálastofnunum sem voru í vanda þar í landi hafi verið bjargað með því að aðrar fjármálastofnanir gleyptu þær veikbyggðari. Margar af spilltustu fjármálastofnunum landsins hafi runnið inn í stærstu fjármálastofnanirnar. Og fjármálakerfið sé enn samanþjappaðra en það var áður.

„Þetta er stórt pólitískt mál og það var stór hluti af málflutningi Bernie Sanders, að það ætti að brjóta upp þessar fjármálastofnanir.“

Þá segir Galbraith að það sé algjör skortur á því að menn hafi verið látnir sæta ábyrgð. „Ólíkt því sem gerðist í „Savings and loan“ krísunni þegar við höfðum virkt réttarkerfi og svikarar þurftu að gjalda fyrir gjörðir sínar. Menn voru saksóttir,“ segir Galbraith. Efnahagsbrotin sem hafi verið framin í aðdraganda að samdrættinum 2007 og 2008 hafi verið stærri en í Savings & loan krísunni, á níunda og tíunda áratugnum, en samt hafi menn ekki verið dregnir til ábyrgðar. „Það var eins og réttarkerfið í heild sinni og ríkisstjórn Obama tækju allir að sér hlutverk verjenda hvítflibbaglæpamannanna,“ segir hann.

Og hann segir að menn hafi áfram sýnt linkind vegna glæpa sem voru framdir eftir bankakreppuna. Þannig hafi stjórnendur HSBC-bankans ekki einungis þurft að svara til saka þegar upp komst að bankinn tók þátt í að þvætta peninga fyrir fíkniefnasmyglhring árið 2012. „Þetta er merki um djúpstæðan vanda,“ segir hann.

Aðspurður segist Galbraith ekki geta ímyndað sér ástæður þess að menn hafi ekki viljað saksækja stjórnendur HSBC vegna peningaþvættismálsins. „Ég get ekki ímyndað mér ástæður þess að menn vilja ekki saksækja stjórnendur banka sem tóku virkan þátt í því að þvætta peninga fyrir fíkniefnasmyglhringi.

En þegar kemur að fjármálastofnunum sem léku stórt hlutverk í fjármálakreppunni þá blasir við sú staðreynd að þessar fjármálastofnanir eru helstu fjármögnunaraðilar stærstu persónanna í stjórnmálunum. Ekki bara forsetans heldur líka aðal keppinautar hans árið 2008, Hillary Clinton,“ segir Galbraith.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×