Viðskipti innlent

Háskerpustöðvar verða sjálfvirkt fyrsta val hjá Vodafone

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Háskerpa fyrsta val eftir daginn í dag.
Háskerpa fyrsta val eftir daginn í dag. Vísir/GETTY
Vodafone sjónvarp hefur ákveðið að gera háskerpuútgáfu sjónvarpsstöðva að aðalstöðvum viðskiptavina og færa þær því fremst í stöðvalista. Áður var háskerpa aftarlega í stöðvalistanum og sjálfkrafa fyrsta val í raun venjubundnar útsendingar.

Breytingin tekur gildi í dag eins og fram kemur í tilkynningu frá Vodafone. Fjölgun verður á háskerpustöðvum og breyting á stöðvauppröðun.

„Háskerpustöðvum í Vodafone Sjónvarpi hefur fjölgað hratt undanfarið og eru þær nú yfir 30 talsins,“ segir í tilkynningu.

Vodafone gerir háskerpu að sjálfvirku fyrsta vali.Fréttablaðið/Daníel
„Frá og með deginum í dag eru háskerpustöðvar í forgangi í Vodafone Sjónvarpi, með því að  háskerpuútgáfur sjónvarpsstöðva á borð við RÚV, Stöð 2 og Sjónvarp Símans færast fremst í stöðvalista viðskiptavina. Samhliða þessum breytingum hefja þrjár íslenskar sjónvarpsstöðvar háskerpuútsendingar í fyrsta sinn –  stöðvarnar N4, Stöð 3 og Bíóstöðin auk aukins framboðs erlendra stöðva í háskerpu eins og Eurosport, Discovery og BBC stöðvarnar. Alls eru nú yfir 30 stöðvar sendar út í háskerpu í Vodafone Sjónvarpi. Kapp hefur verið lagt á að ná þessari breytingu í gegn enda eru gæði útsendinga mikilvæg ekki síst þegar kemur að stórviðburðum á íþróttasviðinu eins og Evrópukeppninni í knattspyrnu og Ólympíuleikunum.“ 

Björn Víglundsson, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustu, lætur hafa eftir sér í tilkynningu að viðskiptavinir kunni að meta aukin gæði og hvetur því aðrar fjölmiðlaveitur til að gera samskonar breytingar á sínu kerfi. 

„Vodafone Sjónvarp verður nú fyrst og fremst í háskerpu. Markmiðið með þessari breytingu er að skila viðskiptavinum enn betri upplifun í sjónvarpsþjónustu – þar sem gæði háskerpuútsendinga verða nú sett í forgang. Til að virkja breytinguna nú þurfa viðskiptavinir í raun ekkert að gera, nema bara kveikja á tækinu til að njóta leikja Íslands á EM eða annarrar sjónvarpsafþreyingar – í háskerpugæðum,“ er haft eftir Birni í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×