Fótbolti

Jón Daði: Fannst þetta eðlilegast í heimi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði í baráttu í leiknum í kvöld.
Jón Daði í baráttu í leiknum í kvöld. vísir/getty
Jón Daði Böðvarsson, framherji Íslands, var uppgefinn í samtali við fjölmiðla eftir frábæra frammistöðu Íslands í 1-1 jafntefli gegn Portúgal á EM í Frakklandi.

„Þetta er bara frábært og miðað við andstæðinginn er þetta frábært. Við tökum 1-1 með glöðu geði," sagði Jón Daði í samtali við fjölmiðla í leikslok.

„Það var einfaldlega að vera aðeins agaðari og ekki hleypa þeim í þessar skyndisóknir sem við fengum á okkur oft á tíðum auðveldlega í fyrri hálfleik."

„Þeir eru stórhættulegir í þeim og mér fannst við ná ágætis tökum á því. Portúgalar eru með svakalega sterkt lið og þeir voru skeinuhættir, en við náðum að halda þeim vel í skefjum."

Jón Daði hljóp tæplega tólf kílómetra í fremstu víglínu Íslands, en hann var gífurlega duglegur í leiknum.

„Ég er alveg búinn á því. Maður varð að hlaupa mikið og maður varð að hjálpa til því vörnin hefst á okkur Kolbeini. Það var ákveðið að gefa allt í þetta."

Einhver umræða var um  hvort Alfreð Finnbogason ætti að byrja frammi með Kolbeini en að endingu var það Jón Daði. Hann segist ánægður með að hafa fengið traustið.

„Auðvitað er maður ánægður með það. Maður er í þessu til að byrja. Þetta er það gaman," en hann segist hafa verið með gott sjálfstraust þrátt fyrir að hafa verið að spila við leikmenn á borð við Pepe og Ricardo Carvalho.

„Mér fannst þetta eðlilegast í heimi. Þetat eru auðvitað frægir kallar og allt það, en þetta eru bara leikmenn með hátt sjálfstraust og hafa náð langt á ferlinum."

„Þeir eru ekkert meira en það. Þú mætir því eins og eðlilegasti maður. Þetta gefur okkur mikið og að byrja á góðum úrslitum í fysrta leik. Það gefur okkur gott sjálfstraust inn í leikinn gegn Ungverjum," sagði Jón Daði að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×