Erlent

Þingmenn fá lögregluvernd vegna líflátshótana

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Cem Özdemin, leiðtogi Græningjaflokksins á þýska þinginu, studdi ályktun um þjóðarmorð sem samþykkt var fyrir stuttu.
Cem Özdemin, leiðtogi Græningjaflokksins á þýska þinginu, studdi ályktun um þjóðarmorð sem samþykkt var fyrir stuttu. Vísir/EPA
Þýsk yfirvöld hafa ákveðið að útvega ellefu þingmönnum lögregluvernd vegna líflátshótana, sem þeim hafa borist frá Tyrklandi.

Þingmennirnir eru allir af tyrkneskum uppruna en greiddu engu að síður atkvæði með ályktun þýska þingsins um að fjöldamorð og nauðungarflutningar á Armenum í Tyrklandi á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar eigi að flokkast undir þjóðarmorð.

„Hvers konar Tyrkir eru þetta eiginlega?“ spurði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, þegar hann frétti af afstöðu þeirra.

Tyrknesk stjórnvöld brugðust ókvæða við ályktun þýska þingsins, en Tyrkir hafa aldrei viljað kalla þessi fjöldamorð þjóðarmorð. Afstaða Tyrkja er sú að þarna hafi Tyrkir og Armenar átt í hörðum átökum með miklu mannfalli á báða bóga.

Tyrkland kallaði sendiherra sinn heim frá Þýskalandi vegna þingsályktunarinnar.

Þessi Frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu 13. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×