Fótbolti

Ótrúleg heimska leikmanns Bandaríkjanna: Fékk tvö gul spjöld með mínútu millibili | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
DeAndre Yedlin, leikmaður bandaríska landsliðsins, kom sínum mönnum í mikil vandræði þegar hann fékk að líta tvö gul spjöld á mettíma í upphafi seinni hálfleiks í leik gegn Paragvæ í A-riðli Copa América í gærkvöldi.

Clint Dempsey kom Bandaríkjunum í 1-0 á 27. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Strax eftir rúma mínútu í seinni hálfleik fékk Yedlin, sem leikur með enska úrvalsdeildarliðinu Sunderland, gula spjaldið fyrir brot á Miguel Almíron.

En Yedlin var hvergi nærri hættur. Paragvæar tóku aukaspyrnuna og eftir nokkrar sendingar straujaði Yedlin Miguel Samudio niður. Síleski dómarinn Julio Bascunan átti engra annarra kosta völ en að lyfta gula spjaldinu öðru sinni og reka Yedlin af velli.

Ótrúleg framganga hjá Yedlin sem setti eflaust eitthvað met því að fá tvö gul spjöld með um mínútu millibili.

Brottvísunin breytti þó engu um úrslitin því einum færri héldu Bandaríkjamenn út og tryggðu sér ekki bara sæti í 8-liða úrslitum Copa América heldur einnig sigur í A-riðli.

Gulu spjöldin tvö sem Yedlin fékk má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×