Fótbolti

Emil: Er í plús í pókernum og þannig verður það

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Hallfreðsson nýtur lífsins í villunni með strákunum okkar.
Emil Hallfreðsson nýtur lífsins í villunni með strákunum okkar. vísir/vilhelm
Emil Hallfreðsson var sallarólegur að vanda þegar Vísir spjallaði við hann í gær á hóteli íslenska landsliðsins í fyrsta og eina skiptið sem íslenskir fjölmiðlamenn fengu að skoða sig um á hóteli strákanna okkar.

Íslenska liðið hefur hótelið út af fyrir sig en um glæsilegt hótel upp í fjallshlíð í Annecy er að ræða. Þar hafa okkar menn allt til alls. Emil er mjög vanur því að gista á hótelum.

„Maður er nokkuð vanur þessu. Síðustu þrjá mánuðina í Udine var ég bara á hóteli. Þetta er topp aðstoða og við höfum ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Emil.

Sjá einnig:Ljósmyndari Vísis myndaði strákana okkar í bak og fyrir á hótelinu í Annecy

„Þetta er bara svona við strákarnir í okkar villu. Það er fínt að fá frábært hótel bara fyrir okkur. Hér enginn að trufla okkur þannig við getum einbeitt okkur að því að ná endurheimt og slaka á.“

Strákarnir okkar hafa mikinn frítíma og þurfa þeir að finna sér eitthvað að gera til að drepa tímann. Á milli þess sem þeir fara í ræktina og ná endurheimt spila þeir tölvuleiki, púl, mínígolf, synda og grípa í spil.

„Á kvöldin erum við strákarnir aðeins að grípa í pókerinn. Það verður að hafa gaman að þessu líka,“ segir Emil, en hvernig gengur honum? „Ég er í plús og þannig verður það,“ segir hann og brosir.

„Þetta eru samt engar upphæðir sem við erum að spila upp á. Þetta er nú bara til að slaka á og drepa tímann.“

Sjá einnig:Aron Einar: Sérsveitarmaður mætti með sniper-riffil með okkur í golf

Þegar Vísir spjallaði við Emil í gær var hann að horfa á leik Sviss og Albaníu. Hafnfirðingurinn hefur mjög gaman að því að horfa á fótbolta og gerir mikið af því.

„Ég fylgist vel með og horfi mikið á fótbolta. Ég horfi mikið á ítalska boltann heima á Ítalíu og nú vil ég fylgjast með EM. Þegar maður var yngri var maður bara að horfa á leikina sér til gamans en nú er líka að taka þátt sem er skemmtilegt,“ segir Emil Hallfreðsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×