Erlent

Vinstri stjórn í kortunum á Spáni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alberto Garzon, leiðtogi Sameinaða vinstriflokksins, og Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, hefja kosningabaráttuna undir merkjum kosningabandalagsins Unidos Podemos, eða "Saman getum við”.
Alberto Garzon, leiðtogi Sameinaða vinstriflokksins, og Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, hefja kosningabaráttuna undir merkjum kosningabandalagsins Unidos Podemos, eða "Saman getum við”. Nordicphotos/AFP
Skoðanakannanir benda til þess að vinstri flokkarnir á Spáni geti myndað samsteypustjórn eftir kosningarnar 26. júní. Stjórnarkreppa hefur verið í landinu í hálft ár, eða frá því tveir nýir flokkar, Podemos og Ciudadanos, unnu fjölda fólks á sitt band á kostnað gömlu valdaflokkanna.

Þjóðarflokki forsætisráðherrans Marianos Rajoy og Sósíalistaflokknum, sem hafa skipst á að fara með stjórn landsins undanfarna áratugi, hefur ekkert gengið að mynda stjórnarmeirihluta. Rajoy sá sér því ekki annað fært en að boða til nýrra kosninga.

Podemos, eða „Við getum“, var stofnaður árið 2014 og hefur barist gegn þeim ströngu aðhaldsaðgerðum, sem stjórnvöld hafa gripið til á Spáni síðustu misserin vegna kreppunnar sem skall á árið 2008. Podemos hefur einnig á stefnuskránni að draga úr völdum Evrópusambandsins.

Flokkurinn hefur nú tekið saman höndum við Sameinaða vinstri flokkinn, sem stofnaður var árið 1986, og nefnist kosningabandalagið Unidos Podemos, eða „Saman getum við“.

Þeir Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos, og Alberto Garzon, leiðtogi Sameinaða vinstri flokksins, stefna nú að því að ná nógu mörgum atkvæðum til að geta myndað stjórn með Sósíalistaflokknum.

Stefnan snýst í megindráttum um að hækka skatta á stóreigna- og hátekjufólk og auka ríkisútgjöld til heilbrigðis- og menntamála.

Iglesias sagði í viðtali nýverið að flokkurinn vilji ná fram ósköp einföldum atriðum: „Land með almannaþjónustu, land þar sem engum er hent út úr húsinu sínu, land með opinberum sjúkrahúsum, opinberum lífeyrissjóðum, land þar sem fólk getur, ef það hefur atvinnu, fyllt hjá sér ísskápinn og keypt skólavörur handa börnunum sínum.“

Í tilefni kosningabaráttunnar hefur Podemos nú gefið út harla nýstárlegan kosningabækling, sem lítur út eins og IKEA-bæklingur. Honum er dreift um land allt í þeirri von að þetta verði mest lesna kosningastefnuskrá allra tíma, að því er liðsmenn Podemos segja.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×