Viðskipti innlent

Starfsmaður Hótel Keflavík níddi Flughótel á netinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Neytendastofa hefur sektað Hótal Keflavík um 250 þúsund krónur. Það var gert eftir að starfsmaður hótelsins skrifaði neikvæðar umsagnir um Flughótel Keflavík á bókunarvefsíðu. Neytendastofa taldi að um óréttmæta og villandi viðskiptahætti væri að ræða.

Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu komu óvenjulega margar slæmar athugasemdir inn á svæði Flughótels í lok maí í fyrra. Skömmu áður hafði starfsmaður hótelsins bókað gistingu á Flughótel fyrir nokkra gesti vegna plássleysis.

Minnst átta mjög slæmar athugasemdir höfðu borist frá netfangi starfsmanns hótelsins  sem bókaði gistingu á Flughótel fyrir áðurnefnda gesti.

Allar athugasemdirnar höfðu formerkinguna „Would not recomment this product“ og var aðbúnaði og þjónustu Flughótels lýst á slæman hátt.

Neytendastofa bendir á að umsagnir á bókunarvefnum eru eingöngu ætlaðar viðskiptavinum fyrirtækja en ekki keppinautum. Þeim sé ætlað að endurspegla reynslu viðskiptavina af þjónustunni. Áðurnefndum athugasemdum hafi verið ætlað að hafa áhrif á eftirspurn þjónustu keppinautar. Því var Hótel Keflavík sektað um 250 þúsund krónur.

Þó kemur fram í ákvörðuninni að Hótel Keflavík hafi brugðist við og gert ráðstafanir til þess að þetta muni ekki gerast aftur af hálfu hótelsins eða starfsmanna þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×