Lífið

Skrifaði óléttuna inn í leikritið

Sólveig Gísladóttir skrifar
Anna Begga á að eiga 18. ágúst en síðasta sýning Lottu er 17. ágúst.
Anna Begga á að eiga 18. ágúst en síðasta sýning Lottu er 17. ágúst. Mynd/Hanna
Anna Bergljót Thorarensen leikur í og skrifaði handritið að Litalandi, leikverkinu sem Leikhópurinn Lotta sýnir um allt land í sumar. Anna Begga leikur hina óléttu Rjóð sem á vel við enda er hún sjáf ólétt log á að eiga daginn eftir síðasta sýningardag sumarsins.

„Ég vissi sjálf að ég væri ólétt þegar ég byrjaði að skrifa handritið, en enginn annar vissi það. Þegar við lásum handritið saman í fyrsta sinn í janúar þurfti ég því um leið að tilkynna um óléttuna. Þau spurðu hver ætti að leika ófrísku gelluna og þá sagði ég að líklega væri best að ólétta stelpan gerði það. Mér tókst því, í staðinn fyrir að láta útskúfa mér fyrir ástand mitt, að skrifa mig inn í verkið þannig að það yrði ekki hjá því komist að ég yrði með,“ segir Anna Begga og hlær hjartanlega.

Anna Begga í hlutverki Gilla gríslings úr Litlu gulu hænunni frá í fyrra, með stjúpdætrum sínum Bjarneyju Lilju (9 ára) og Andreu Rós (13 ára).
Fann ástina á Akureyri

Anna Begga er Kópavogsbúi í húð og hár en hefur undanfarið eitt og hálft ár búið á Akureyri og unnið hjá Menningarfélagi Akureyrar. Nú hefur hún hins vegar fest kaup á fasteign í Kópavogi og hefur því snúið aftur í heimahagana en mun ríkari en áður. „Ég fann mér Akur­eyring fyrir norðan og tókst að draga hann með mér suður,“ segir Anna Begga glaðlega en hinn lukkulegi er Gísli Ólafsson forritari. Í bónus fékk Anna Begga einnig tvær dætur Gísla. „Ég fór því frá því að vera 101 „single“ skvísa í Reykjavík yfir í að vera tveggja barna móðir í póstnúmeri 600,“ segir hún glettin en bætir við að hún sé mjög lukkuleg með stjúpmóðurhlutverkið sem hefur þó oft á sér slæman stimpil. „Ég er rosalega heppin, þessar stelpur eru algerir snillingar. Reyndar hjálpaði töluvert að dálítill stjörnuljómi var yfir okkar fyrstu kynnum en þær sáu mig fyrst þegar ég var að leika í Hróa Hetti,“ segir hún og brosir.

Hugmyndin um móðurhlutverkið var Önnu Beggu alltaf fremur fjarlæg. „Ég var eiginlega búin að ákveða að prófa þetta ekki. Planið var að finna mér ekkil þegar ég væri fimmtug sem ætti uppkomin börn og eignast með honum barnabörnin. En það fór gjörsamlega út um þúfur þegar ég kynntist Gísla.“

Anna Begga í hlutverki Rjóðar en hér er hún með litríku fjölskyldunni sinni.
Sett daginn eftir síðustu sýningu

Anna Begga á von á sínu fyrsta barni þann 18. ágúst en síðasta sýning Lottu í sumar er 17. ágúst. „Það hefur allt gengið rosalega vel. Ég var þreytt fyrstu mánuðina en núna er ég mjög hress. Ég held að sýningastússið hjálpi mér frekar en hitt enda fæ ég góða hreyfingu sem ég myndi annars ekki fá,“ segir Anna Begga sem þarf að klifra upp á leikmyndina í leikritinu. „Ég mun alltaf þurfa að fara upp á pallinn en kannski skríð ég frekar en geng þegar lengra líður. Hún Rjóð verður bara jafn ólétt og ég er á hverjum tíma,“ segir hún brosandi. „Svo sjáum við bara til. Markmiðið er að klára þetta alla leið, en ef eitthvað kemur upp á þá kemur alltaf maður í manns stað.“

Gafst upp á bankastarfinu

Anna Begga fór ekki beinu leiðina í leiklistina. Hún er stúdent af hagfræðibraut, lærði viðskiptafræði á Bifröst og lærði verðbréfamiðlun. „Ég vann í banka í tvö ár og fannst það svo sjúklega leiðinlegt að ég hætti árið 2007, stofnaði leikhóp og hef unnið við listir síðan þá.“

Var hún þá kannski forspá á hrunið? „Nei, ég ætla ekki að þykjast hafa verið það. En mér leist ekki á stemninguna og þegar bankastjórinn var farinn að selja sín hlutabréf ákvað ég að gera slíkt hið sama og snúa mér að einhverju allt öðru sem var gríðarlega góð ákvörðun.“

Allur Lottuhópurinn eftir vel heppnaða frumsýningu.
Öll bestu vinir

Anna Begga hefur verið áhugaleikari frá átta ára aldri og verið í ýmsum áhugaleikhópum. Hún stofnaði leikhópinn Lottu árið 2007 ásamt góðum vinum sínum úr áhugaleikhópunum sem höfðu áhuga á að gera ennþá meira. „Flest leikhús eru í fríi á sumrin en við fengum ekki nóg. Við vorum strax stórhuga, settum upp Dýrin í Hálsaskógi og ákváðum að ferðast um allt land með sýninguna og sjá hvort það myndi leiða okkur eitthvað. Viðtökurnar voru svakalega góðar. Strax á frumsýningu mættu fleiri en höfðu mætt á allar sýningar áhugaleikhússins.“

Þetta er tíunda sumarið sem Lotta starfar og Anna Begga segir vinnuna erfiða en afar skemmtilega. „Maður þarf að fría sig frá öllu öðru, það er ekkert annað á dagskrá á sumrin nema Lotta,“ segir hún en félagar í Lottu þurfa að sinna öllum hlutverkum, allt frá markaðsstarfi og uppsetningu leikmyndar til afgreiðslu í miðasölu.

„Þetta er ofboðslega gaman enda erum við öll bestu vinir. Vinahópurinn sem stofnaði Lottu hefur þróast, einhverjir hætt og aðrir byrjað í staðinn. Hins vegar veljum við bara fólk með okkur sem eru góðir vinir.“ Hópurinn ferðast saman í bílnum Lottu sem dregur kerruna Skottu sem í er leikmynd og farangur. „Síðan höfum við gist í skólastofum og lifað hálfgerðu síg­aunalífi.“

Sumarið verður þó aðeins öðruvísi í ár hjá Önnu Beggu. „Nú verð ég með eigin bíl og búin að kaupa fellihýsi þar sem ég, karlinn, börnin tvö og bumbubúinn munum búa í sumar.“

Hún segir Gísla taka virkan þátt í Lottulífinu. „Þar sem ég má ekki lyfta þungu hjálpar Gísli til við að setja upp leikmyndina fyrir hverja sýningu og taka hana niður að henni lokinni. Hann er eiginlega orðinn rótari hjá okkur,“ segir hún glettin.

Þessi mynd af Hafliða í Litalandi minnir um margt á fræga fréttamynd úr íslenskum fjölmiðlum í vetur.
Leikrit með boðskap

Leikrit Lottu hafa ávallt verið frumsamin fyrir utan fyrsta árið. „Við vildum hafa frjálsar hendur,“ útskýrir Anna Begga en iðulega hafa leikverkin verið lauslega byggð á þekktum ævintýrum. Svo er þó ekki í ár en Litaland er alfarið frumsamið verk og með góðan boðskap. „Boðskapurinn kom fyrst og síðan leikritið en ástandið í heiminum og flóttamannavandinn eru málefni sem brenna á öllum í leikhópnum,“ segir Anna Begga. Þrátt fyrir alvarlegan undirtón er verkið fyrst og fremst skemmtilegt. „Boðskapurinn er einfaldur og við förum lítið út í pólitík,“ segir Anna Begga en það hefur verið markmið Lottu frá fyrstu tíð að vera með fjölskyldusýningar sem foreldrum leiðist ekki á. „Við viljum ekki síður skemmta fullorðna fólkinu enda vitum við að verið er að spila diskana í bílum á leið um landið og því eins gott að það sé ekki drepleiðinlegt efni í gangi,“ segir hún og hlær.

Öll leikrit Lottu eru til á hljómdiskum en er ekki von á mynddiskum í framtíðinni? „Það er greinilegt að markaðurinn óskar eftir því en við erum pínu hrædd við að færa leikhús yfir á stafrænt form. Það eru hins vegar viðræður í gangi en ekkert er niðurneglt.“

Vill lifa á listinni

Anna Begga hefur hingað til verið í annarri vinnu á veturna. „Í vetur verð ég í fæðingarorlofi en í framhaldi af því langar mig mest að einbeita mér meira að skrifum, ekki aðeins fyrir Lottu, og gefa jafnvel út einhverjar bækur. Minn Akkillesarhæll er að taka of mikið af verkefnum að mér. Nú ætla ég að prófa að vera ekki í föstu vinnunni heldur að sinna þessum verkefnum og sjá hvort það gangi ekki upp.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×