Viðskipti innlent

Landkynningin milljarða virði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður Íslandsstofu
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður Íslandsstofu
Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður Íslandsstofu, segir landkynningu þjóðarinnar vegna Evrópumótsins í knattspyrnu milljarða virði. Erfitt sé að verðmeta slíka umfjöllun, en segir hana ómetanlega.

„Við værum örugglega að borga milljarða. Bara sem dæmi þá vorum við með markaðsherferð núna í vor sem fékk yfir 400 blaðagreinar og virði þeirra greina var 1,6 milljarður,“ sagði Inga Hlín í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

„Ég er ekki með tölur yfir hversu margar greinar eru komnar núna en við munum væntanlega á næstunni geta tekið eitthvað af því saman. Við munum auðvitað aldrei ná utan um það allt saman en þetta er ómetanlegt í þeim skilningi,“ bætir Inga við.

Þá segir hún að búist sé við enn frekari fjölgun ferðamanna, en líkt og greint hefur verið frá hefur Ísland ekki fengið eins mikla athygli á leitarvélum frá árinu 2008 þegar gosið í Eyjafjallajökli hamlaði flugsamgöngum. Inga segir Ísland vel í stakk búið til þess að taka á móti fleiri ferðamönnum.

„Ferðamönnum er enn að fjölga en þeim er mest að fjölga utan háanna til Íslands. Það sem búið er að gerast undanfarið er að það er uppbygging á Íslandi, á hótelum og afþreyingu þannig að við erum svo sannarlega ekki að sjá að það sé uppselt.“

Inga Hlín segir jafnframt að upplifun okkar af ferðamennsku og ferðamönnum hér á landi sé allt önnur en upplifun ferðamannsins. „Það var blaðamaður hjá mér um daginn sem kom sérstaklega til Íslands til að leita að öllum ferðamönnunum. Hann kom til mín og spurði: „Hvar finn ég ferðamennina, ég er ekki búinn að hitta neinn síðan ég keyrði hér um landið. Þannig að upplifun okkar og upplifun ferðamannsins er alls ekki sú sama,“ segir Inga og bætir við að 95 prósent  þeirra sem koma hingað til lands fari frá ánægðir frá landi og að 85 prósent segist ætla að koma aftur til baka.

„Við þurfum kannski að skoða okkar þolmörk en á sama tíma er ferðamaðurinn afskaplega ánægður.“

Viðtalið við Ingu Hlín má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×