Íslandi hefur ekki verið slegið jafn oft upp í leitarvélinni Google í sex ár eða síðan Eyjafjallajökull hrelldi flugfarþega víða um heim. Forstöðumaður hjá Íslandsstofu segir forvitni heimsbyggðarinnar á landinu nú vera allt annars eðlis en þá og telur landkynningu þjóðarinnar vegna Evrópumótsins ómetanlega.
Það er því alveg óhætt að segja að landkynningin sem þjóðin hefur fengið í kjölfar evrópumótsins gæti reynst gulls ígildi. Inga Hlín Pálsdóttir , forstöðumaður hjá Íslandsstofu, segir áhrif mótsins vera frábær fyrir þjóðina.
„Við sjáum gríðarlega mikinn áhuga og forvitni um Ísland. Ísland hefur aldrei verið googlað jafn mikið núna á á netinu síðan Eyjafjallajökull var. Við sjáum að það er komið upp í helminginn af því sem þá var. Við erum mjög spennt að sjá hvernig það verður núna í framhaldinu.“
Einnig verði að hafa í huga að nú sé verið að slá nafni Íslands inn á allt öðrum forsendum en þegar Eyjafjallajökull gaus. Þá sat fólk fast í flugvöllum en núna snýst leitin meira um forvitni.
Erfitt sé að átta sig á hversu mikil langtímaáhrifin af mótinu verða en mikilvægt sé að hamra járnið meðan það er heitt.
„Við þurfum að nýta okkur þennan meðbyr, klárlega.“ Segir Inga Hlín.
