Viðskipti innlent

Grafast fyrir um kynbundinn launamun innan sveitarfélaganna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Í Akureyrarbæ verður gerð rannsókn í haust um kynbundinn launamun sem nær þá yfir öll stéttarfélög starfsmanna.
Í Akureyrarbæ verður gerð rannsókn í haust um kynbundinn launamun sem nær þá yfir öll stéttarfélög starfsmanna. Vísir/Hörður Finbogason
Sveitarfélög landsins hyggjast kafa ofan í orsök kynbundins launamunar starfsmanna þeirra í kjölfar niðurstöðu nýrrar kjarakönnunar félagsmanna Bandalags íslenskra háskólamanna. Könnunin sýndi að kynbundinn launamunur hefur rokið upp í sveitarfélögum landsins, utan Reykjavíkurborgar, milli áranna 2014 og 2015, úr átján prósentum í 29 prósent.

Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga telja ástandið alvarlegt og munu gera úttekt á áhrifum starfsmats á launamun kynjanna í haust.

Sérstakar kannanir um kynbundinn launamun hafa ekki verið gerðar innan Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Við erum að skoða núna okkar gögn og erum búin að óska eftir fundi með BHM. Við munum taka næstu daga í að fara yfir þetta. Við viljum greina þessa stöðu vel. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs sambandsins.

„Það var gerður kjarasamningur í apríl við öll félögin í BHM um að fara í starfsmat, í apríl var stigið fyrsta skrefið í því. Þetta var allt saman skoðað og algjörlega stokkað upp á nýtt og sú aðgerð hefur örugglega haft mjög jákvæð áhrif varðandi launamun kynjanna, þetta var í gangi á sama tíma og könnunin var gerð,“ segir Inga Rún.

„Við munum líka gera könnun á því hvernig það hefur raungerst. Við munum gera nákvæma úttekt á því í október.“

Svör fengust ekki í tæka tíð um kynbundinn launamun innan sveitarfélaga sem haft var samband við nema frá Akureyrarbæ og Garðabæ. Á Akureyri verður gerð rannsókn í haust sem nær þá yfir öll stéttarfélög starfsmanna. Ekki var marktækur kynbundinn munur á heildarlaunum karla og kvenna hjá Garðabæ samkvæmt könnun sem gerð var árið 2014. Við skoðun innanhúss í gær er ekki um kynbundin launamun að ræða hjá Garðabæ samkvæmt upplýsingum frá starfsmannahaldi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 24. júní


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×