Erlent

Um hundrað þingmenn Demókrata í setuverkfalli

Atli Ísleifsson skrifar
Frá setuverkfalli þingmannanna.
Frá setuverkfalli þingmannanna. Vísir/AFP
Um hundrað þingmenn bandaríska Demókrataflokksins hafa komið sér fyrir á gólfi þingsalsins og neita að yfirgefa staðinn. Þetta gera þeir til að krefjast atkvæðagreiðslu um lagabreytingar sem varða skotvopnalöggjöf landsins.

Demókratar hafa krafist þess að bakgrunnsrannsóknir á skotvopnakaupendum verði efldar og sala á skotvopnum til grunaðra hryðjuverkamanna bannaðar.

Aðgerðir þingmannanna koma í kjölfar mannskæðasta fjöldamorðs í sögu Bandaríkjanna þar sem Omar Mateen varð 49 manns að bana á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando fyrir tíu dögum.

Þingmenn Repúblikana, sem mynda meirihluta á þinginu, fóru fram á þinghlé þannig að slökkva varð á öllum myndavélum í þingsalnum eftir að þingmennirnir komu sér fyrir á gólfinu.

Mótmælendurnir, þingmenn Demókrata, komu því sjálfir myndum af setuverkfallinu í dreifingu á netinu til að koma boðskapnum á framfæri.

Öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði fyrr í vikunni fjórum frumvörpum sem miðuðu að því að herða skotvopnalöggjöf landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×