Erlent

Assad útnefnir nýjan forsætisráðherra Sýrlands

Atli Ísleifsson skrifar
Imad Khamis hefur átt sæti í ríkisstjórn frá árinu 2011.
Imad Khamis hefur átt sæti í ríkisstjórn frá árinu 2011. Vísir/AFP
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hefur útnefnt Imad Khamis, ráðherra rafmagnsmála, sem nýjan forsætisráðherra landsins. Hann hefur einnig veitt Khamis umboð til að mynda nýja ríkisstjórn í landinu.

Í frétt SVT segir að Assad muni greina frá nöfnum fimm nýrra ráðherra á næstu dögum.

Khamis er menntaður verkfræðingur og mun taka við embætti forsætisráðherra af Wael al-Halqi sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2012.

Þingkosningar fóru fram í Sýrlandi fyrir um tveimur mánuðum þar sem flokkur Assads og samstarfsflokkar hans náðu meirihluta, en framkvæmd kosninganna var harðlega gagnrýnd á alþjóðavettvangi.

Khamis hefur átt sæti í ríkisstjórn frá árinu 2011, en ári síðar var hann settur á svartan lista ESB þar sem hann var ásamt öðrum sakaður um að bera ábyrgð á ofsóknum ríkisstjórnarinnar á hendur almennum borgurum.

Borgarstríðið í Sýrlandi braust út árið 2011 og hafa um 280 þúsund manns týnt lífi síðan.


Tengdar fréttir

Skjöl benda til samvinnu Assads og ISIS

Skjöl sem SKY fréttastofan hefur undir höndum og eru sögð koma frá ISIS vígasveitunum benda til þess að stjórnarher Assads Sýrlsandsforseta og ISIS hafi starfað saman á laun á vígvellinum. Til að mynda virðist stjórnarherinn hafa sæst á að ISIS menn fengu að koma hertólum sínum frá borginni Palmyra áður en Assad náði aftur tökum á henni og þá virðist hafa verið í gangi samningur um að ISIS léti Assad olíu í té í skiptum fyrir áburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×