Erlent

Öldungadeild Bandaríkjaþings felldi tillögur um hertari byssulöggjöf

Atli ísleifsson skrifar
Mikið hefur verið þrýst á þingmenn að herða skotvopnalöggjöf landsins síðustu daga.
Mikið hefur verið þrýst á þingmenn að herða skotvopnalöggjöf landsins síðustu daga. Vísir/AFP
Öldungadeild Bandaríkjaþings felldi í dag fjórar breytingatillögur sem miðuðu að því að herða skotvopnalöggjöf landsins. Tillögurnar fólu allar í sér að auka bakgrunnsrannsóknir á kaupendum skotvopna og koma meðal annars í veg fyrir að fólk á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn fái að kaupa skotvopn.

Í frétt Reuters kemur fram að þingmenn Demókratar hafi lagt fram tvær breytingartillögurnar og þingmenn Repúblikana tvær. Sextíu af hundrað þingmönnum öldungadeildarinnar þurftu að greiða atkvæði með tillögunum til að þær yrðu að lögum, en enginn þeirra naut nægilegs stuðnings þegar upp var staðið.

Tillögurnar voru lagðar fram í kjölfar eins mannskæðasta fjöldamorðs í sögu Bandaríkjanna þar sem Omar Mateen varð 49 manns að bana í árás sinni á skemmtistað fyrir hinsegin fólk í Orlando um þarsíðustu helgi.

Mikið hefur verið þrýst á þingmenn að herða skotvopnalöggjöf landsins síðustu daga, en andstæðingar breytingatillagnanna sögðu þær of hamlandi og brjóta í bága við stjórnarskrárvarinn rétt fólks að bera vopn.

„Það er alltaf sama sagan. Eftir sérhvern harmleik reynum við Demókratar að ná breytingum í gegn til að auka skotvopnaöryggi. Því miður eru tilraunir okkar stöðvaðar af meirihluta Repúblikana sem taka við tilskipunum frá Skotvopnasambandi Bandaríkjanna (NRA),“ sagði Harry Reid, leiðtogi Demókrata í öldungadeild þingsins.


Tengdar fréttir

Byssueignin er vandamálið vestanhafs

Bandaríkjamenn styðja frelsi fólks til skotvopnaeignar þrátt fyrir mannfall í skotárásum þar. Litlar breytingar eru í sjónmáli á skotvopnalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×