Erlent

Mateen lýsti sjálfum sér sem íslömskum hermanni í samtali við lögreglu

Atli Ísleifsson skrifar
Omar Mateen varð 49 manns að bana í skotárás á næturklúbbi fyrir hinsegin fólk í Orlando um þarsíðustu helgi.
Omar Mateen varð 49 manns að bana í skotárás á næturklúbbi fyrir hinsegin fólk í Orlando um þarsíðustu helgi. Vísir/AFP
Omar Mateen lýsti sjálfum sér sem íslömskum hermanni í símtölum sínum við lögreglu kvöldið þegar hann varð 49 manns að bana í skotárás á næturklúbbi fyrir hinsegin fólk í Orlando um þarsíðustu helgi.

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur birt afrit af hluta þeirra símtala sem Mateen átti við samningamenn lögreglu en þriggja tíma umsátri lögreglu lauk með því að Mateen var skotinn til bana af lögreglu.

Í gögnunum kemur fram að Mateen hafi minnst á stríðið í Sýrlandi og hryðjuverkaárásirnar í Frakklandi þegar hann hringdi í neyðarlínuna frá skemmtistaðnum Pulse.

Í frétt BBC um málið kemur fram að Mateen hafi tvívegis rætt við starfsmann neyðarlínunnar í þeim þremur símtölum sem hann hringdi um hálftíma eftir að hann réðst inn á staðinn.

Að sögn hringdi Mateen eftir að hafa skotið fjölda fólks og hélt á öðrum tug manna í gíslingu á skemmtistaðnum.

Mateen ræddi síðar þrívegis við samningamenn Orlando-lögreglunnar þar sem hann lýsti sjálfum sér sem íslömskum hermanni.

Talsmaður FBI segir að Mateen hafi talað með rólegri og hrollvekjandi röddu. Ekkert bendi til þess að erlendur hryðjuverkahópur hafi tengst árásinni og líklegast væri að Mateen hafi hneigst til róttækra skoðana sinna heima í Bandaríkjunum.

Í þeim gögnum sem FBI hafa nú gert opinber kemur ekki fram hvaða hryðjuverkahópa Mateen lýsti yfir hollustu við í símtölunum. Hann hafi fyrirskipað bandarískum yfirvöldum að hætta loftárásum sínum í Sýrlandi og Írak og að þær væru ástæða þess að „hann væri hér núna“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×