Lífið

Hollywood syrgir Yelchin: „Við höfum misst einstaka og djúpa sál“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Anton Yelchin var 27 ára gamall leikari.
Anton Yelchin var 27 ára gamall leikari. Vísir/Getty
Stjörnur og starfskraftar í Hollywood hafa brugðist við dauða leikarans Anton Yelchin en hann lést í hörmulegu slysi um helgina. Bíll hans rann úr innkeyrslunni við heimili hans og kramdi hann þar sem hann stóð fyrir aftan bifreiðina. Yelchin var aðeins 27 ára gamall og hefur leikið í fjölda kvikmynda. Kvikmyndafyrirtækið Paramount sendi frá sér yfirlýsingu í gær en fyrirtækið sér um dreifingu á einni af síðustu kvikmyndunum sem Yelchin lék í, Star Trek Beyond.

„Við hér hjá Paramount syrgjum ásamt heimsbyggðinni hörmum ótímabært lát Anton Yelchin. Hann var, sem hluti af Star Trek fjölskyldunni, elskaður af svo mörgum og verður saknað af öllum. Við vottum móður hans, föður og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.“

Sjá einnig: Hönnunargalli hugsanlegt banamein Anton Yelchin

Doremus segist eiga erfitt með að átta sig á að Yelchin hafi látist.Vísir/EPA
Leikstjórinn Drake Doremus, sem leikstýrði kvikmyndinni Like Crazy sem vann til Sundance verðlauna árið 2011, tjáði sig við miðilinn Hollywood Reporter í gær. Yelchin hlaut mikið lof fyrir leik sinn í Like Crazy en kvikmyndin fjallar um ástarsamband tveggja einstaklinga sem búa í sitthvorum heimshlutanum.

„Ég er enn í áfalli,“ sagði Doremus. „Ég á erfitt með að átta mig á þessu. Ég vaknaði bara og sá þetta á netinu og hélt að þetta væri einhvers konar gabb, þú veist eins og birtist stundum. Svo talaði ég við nokkra sem staðfestu þetta og þetta er bara harmleikur.“

Felicity Jones, sem lék á móti Yelchin í fyrrnefndri kvikmynd Like Crazy, tekur fráfall vinar síns mjög nærri sér.

Stjörnur kvikmyndarinnar Like Crazy, Felicity Jones og Anton Yelchin.Vísir/EPA
„Ég er eyðilögð. Heimur án Antons er verri heimur. Hann snerti við öllum sem hann hitti með hreinskilni sinni og mannúð. Við höfum misst einstaka og djúpa sál,“ sagði Jones í yfirlýsingu. 

Jodie Foster leikstýrði Yelchin í kvikmyndinni The Beaver og hún syrgir einnig leikarann unga. 

„Sjaldgæf og einstök sál með óstöðvandi ástríðu fyrir lífinu. Hann var bæði djúpur og alvarlegur hugsuður og á sama tíma skemmtilegasti litli bróðir sem þú gætir látið þig dreyma um,“ sagði Foster.

Jodie Foster syrgir Yelchin.
„Ég er svo stolt af því að hafa fengið að leikstýra svo djúpum leikara, sem gaf sig allan og var svo ósvikinn. Ég verð að eilífu þakklát fyrir stundirnar sem við deildum, hans smitandi eldmóð, spurningar hans og nærveru hans.“

Hér að neðan má sjá kveðju frá J.J.Abrams sem leikstýrði síðustu tveimur Star Trek myndum áður en Justin Lin tók við fyrir síðustu mynd sem áður var nefnd, Star Trek Beyond.

Fyrir neðan kveðju Abrams má sjá fleiri þekkta einstaklinga bregðast við þessum hörmulegu fréttum.

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×