Erlent

Nýr kafli í sögu Borgarinnar eilífu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Virginia Raggi var sigurreif í nótt.
Virginia Raggi var sigurreif í nótt. visir/getty
Eftir árhundruð af karlkyns borgarstjórum og keisurum hafa Rómverjar kosið sér kvenkyns borgarstjóra.

Virgina Raggi, 37 ára gamall lögfræðingur, leiddi Fimmstjörnuhreyfinguna til sigurs í borgarstjórnarkosningunum í borginni eilífu. Hún hlaut um tvo þriðju hluta atkvæða í seinni umferð borgarstjórakosninganna og lýsti andstæðingur hennar yfir ósigri skömmu eftir miðnætti.

Raggi setti spillingu opinberra fulltrúa og sorphirðumál á oddinni í baráttu sinni en þau hafa lengi þjakað íbúa borgarinnar. Sigur Raggi og Fimmstjörnuhreyfingarinnar er ekki síst rakinn til fyrirferðamikils dómsmáls sem nú er rekið fyrir ítölskum dómstólum. Þar er réttað yfir fjölda ríkisstarfsmanna og kjörinna fulltrúa vegna meintrar spillingar þeirra. Sumir þeirra hafa jafnvel verið sakaðir um að beita „mafíulegum“ hótunum til þrýsta á samningagerð.

Ítalir telja að þessi langlífa spilling meðal toppa Rómar hafi ýtt undir hningun innviða borgarinnar. Sorphirðu- og samgöngumál hafa lengi verið í ólestri og eru íbúar borgarinnar langþreyttir á ástandinu. Á þann streng spilaði Raggi látlaust í baráttu sinni og Fimmstjörnuhreyfingarinnar.

Hún hefur heitið því að auka gagnsæi í störfum borgarinnar og standa vörð um lög og reglu. „Íbúar Rómar hafa sigrað, með okkur hefst nýtt skeið í sögu borgarinnar,“ sagði Raggi þegar úrslitin lágu fyrir í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×