Viðskipti innlent

Kortavelta ferðamanna 20 milljarðar í maí

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Um er að ræða 51,4 prósenta aukningu frá sama tíma í fyrra þegar kortaveltan var þrettán milljarðar króna.
Um er að ræða 51,4 prósenta aukningu frá sama tíma í fyrra þegar kortaveltan var þrettán milljarðar króna. vísir/ernir
Erlend greiðslukortavelta nam tæpum tuttugu milljörðum króna í maí síðastliðnum. Um er að ræða 51,4 prósenta aukningu frá sama tíma í fyrra þegar hún var þrettán milljarðar króna.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Kortavelta ferðamanna jókst á milli ára í öllum útgjaldaliðum í maí. Erlendir ferðamenn greiddu tæpar 600 milljónir með kortum sínum til dagvöruverslana í maí, um 81 prósent meira en í maí í fyrra en erlend kortavelta í dagvöruverslun hefur fjórfaldast á síðustu fjórum árum.

Kortavelta erlendra ferðamanna í verslun jókst um tæp 41 prósent milli ára en það sem af er árinu hafa erlendir ferðamenn greitt 8,2 milljarða í verslun með kortum sínum.

Mestur vöxtur var í flugferðum, um 146 prósent, og er maí sjöundi mánuðurinn í röð þar sem greiðslukortavelta vegna flugferða meira en tvöfaldast frá fyrra ári. Hluti þeirrar greiðslukortaveltu sem fellur undir þennan lið er greiðsla fyrir þjónustu sem innt er af hendi utan landsteinanna.

Þá var töluverð aukning í kortaveltu ferðamanna til bílaleiga og greiddu ferðamenn í maí rúmlega 1,8 milljarða fyrir bílaleigubíla. Það er um 43 prósenta aukning frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er ári hafa ferðamenn eytt um sex milljörðum í bílaleigubíla.

Í maí komu um 124 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 37 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×