Erlent

Líknardráp hefur verið gert löglegt í Kanada

Þórdís Valsdóttir skrifar
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, studdi frumvarpið sem nú er orðið að lögum.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, studdi frumvarpið sem nú er orðið að lögum. vísir/epa
Líknardráp hefur verið leitt í lög í Kanada eftir margra vikna deilur um málið í kanadíska þinginu. Frumvarpið var kynnt í apríl af ríkisstjórn Justin Trudeau, forsætisráðherra.

Fólki með ólæknanlega sjúkdóma eða varanlega fötlun er því heimilt að binda enda á líf sitt með aðstoð lækna, kjósi það svo.

Kanada er með löggjöfinni eitt af fáum ríkjum heims sem hefur lögleitt líknardráp. Sjúklingar sem kjósa þennan valkost þurfa að uppfylla ýmis skilyrði, svo sem um andlega hæfni og að vera yfir átján ára. Sá varnagli er einnig sleginn að tvö vitni skulu vera viðstödd þegar sjúklingur skrifar undir beiðni um aðstoð læknis við að binda enda á líf sitt.

Miklar deilur voru í kandíska þinginu vegna frumvarpsins því fjöldi þingmanna vildi víkka gildissvið laganna þannig að þau næðu einnig til þeirra sem þjást af hrörnunarsjúkdómum. Frumvarpið var að lokum samþykkt óbreytt og skilgreina lögin líknardráp nokkuð þröngt. Þá er einungis tekið tillit til líkamlegrar þjáningar, ekki andlegrar. 

Fréttin birtist fyrst i Fréttablaðinu 20. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×