Viðskipti innlent

Vaxtabætur dragast verulega saman

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hratt hefur dregið úr greiðslum vaxta- og barnabóta síðustu ár.
Hratt hefur dregið úr greiðslum vaxta- og barnabóta síðustu ár.
Ríkissjóður greiðir 4,3 milljarða í vaxtabætur í ár, samkvæmt yfirliti efnahags- og fjármálaráðuneytisins.

Greiddir voru út 7,6 milljarðar króna 2012, en upphæðin hefur síðan lækkað á hverju ári. Lækkunin nemur um 43 prósentum á fimm árum. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu stafar lækkunin af því að tekjur heimila hafa aukist og skuldir minnkað.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir alþingismaður
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfylkingar, segir lækkun vaxtabóta alvarlega þróun. Lækkunin sé meiri en skýrist af minni skuldsetningu heimila. Verið sé að auka tekjutengingu þannig að sífellt minni hópur fái vaxtabæturnar.

„Og þegar þú lest ríkisfjármálaáætlunina, sem var lögð fram í vor, þá er mjög erfitt að lesa hver áformin eru, bæði með barnabætur og vaxtabætur, önnur en þau að gera þetta að fátæktarbótum en ekki skatta­afslætti fyrir launafólk,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Þetta sé stefnubreyting þar sem litið sé til ráðlegginga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í stað þess að líta til þess hvernig Norðurlöndin fara með þessi mál.

„Þróunin endurspeglar í rauninni það að ríkisstjórnin er að hverfa frá hinum norrænu velferðarmódelum og rýrir þar með kjör millitekjufólksins.“

Í sumar samþykkti Alþingi lög um nýtt húsnæðisbótakerfi. Sigríður Ingibjörg segir að þetta sé í raun og veru sama kerfi og var fyrir húsaleigubætur en nýja kerfið nái til breiðari hóps og bæturnar hjá þeim sem hafi lægstu tekjurnar hækki. En það hefði verið betra og það hafi verið sátt um það við sveitarfélögin að búa til kerfi þar sem húsnæðisstuðningur yrði jafn, óháð því hvort fólk byggi í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×