Viðskipti innlent

Íslendingar farnir að þjappa sér meira saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Á árinu 2014 bjuggu 2,45 í hverri íbúð á Íslandi.
Á árinu 2014 bjuggu 2,45 í hverri íbúð á Íslandi. Vísir/Getty
Fjölda íbúa á hverja íbúð á Íslandi hefur farið fjölgandi frá árinu 2010, eftir stöðuga fækkun frá sjöunda áratug síðustu aldar. Íslendingar búa enn þéttar en nágrannaþjóðir.

Frá árinu 1960 hefur sú þróun átt sér stað hér á landi að sífellt færri einstaklingar búa í hverri íbúð eða einingu. Árið 1994 bjuggu 2,75 einstaklingar í hverri íbúð og 2010 voru þeir 2,33.

Fjöldi íbúa á hverja íbúð hefur hins vegar færst í aukanna á Íslandi frá árinu 2010. Á árinu 2014 bjuggu 2,45 í hverri íbúð. Í hagsjá Landsbankans kemur fram að þarna sé væntanlega um eina af afleiðingum hrunsins að ræða. Margar fjölskyldur lentu í örðugleikum vegna húsnæðis og svo hefur ungt fólk átt erfitt með að komast í eigið húsnæði á síðustu árum.

Íslendingar búa enn þéttar en aðrar þjóðir þegar litið er til nágrannalanda. Á árinu 2014 bjuggu 19 prósent fleiri Íslendingar en Danir í hverri íbúð.

Mikill munur er á hversu margir búa í hverri íbúð milli sveitafélaga. Á stór-höfuðborgarsvæðinu bjuggu langfæstir per íbúð í Reykjanesbæ á árinu 2014 og næstfæstir í Reykjavík. Flestir búa per íbúð bjuggu í Garðabæ og Hafnarfirði og hefur þróunin verið töluverð upp á við í báðum bæjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×