Erlent

Íraksstríðið vanhugsað hernaðarbrölt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og George W. Bush Bandaríkjaforseti hittust stuttu fyrir innrásina í Írak til að ræða undirbúninginn. Fréttablaðið/EPA
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og George W. Bush Bandaríkjaforseti hittust stuttu fyrir innrásina í Írak til að ræða undirbúninginn. Fréttablaðið/EPA
John Chilcot lávarður, formaður rannsóknarnefndar sem í sjö ár hefur skoðað aðdraganda, undirbúning og framkvæmd aðildar Bretlands að innrásinni í Írak í mars 2003, er harðorður í garð þáverandi stjórnvalda.

Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, hafi ákveðið að taka þátt í innrásinni með Bandaríkjunum án fullnægjandi undirbúnings, án þess að hafa hlustað á varnaðarorð og án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum.

„Þegar möguleikinn á hernaðaraðgerðum kemur til sögunnar, þá eiga stjórnvöld ekki að skuldbinda sig til þess að ná fram ákveðnum pólitískum markmiðum fyrr en ljóst er orðið að hægt verði að ná þeim,“ sagði Chilcot í gær, þegar hann kynnti niðurstöður rannsóknarinnar: „Það er grundvallaratriði að reglulega sé allt endurmetið.“

Chilcot sagði að við upphaf innrásarinnar hafi bresk stjórnvöld búist við því að hernaðaraðgerðirnar yrðu vel útfærðar undir forystu Bandaríkjanna og með heimild frá Sameinuðu þjóðunum, og að aðstæður yrðu ekki mjög hættulegar. Raunin hafi orðið allt önnur.

Þegar rannsóknarnefndin yfirheyrði Tony Blair hafi hann sagt að fyrirfram hafi engan veginn verið hægt að gera sér grein fyrir þeim erfiðleikum, sem innrásarliðið lenti í eftir að til Íraks var komið. Chilcot segir að Blair hafi þarna rangt fyrir sér: „Fyrir innrásina var greinilega búið að benda á hættuna á innanlandsátökum í Írak, á tilraunum Írana til að ná fram hagsmunum sínum, á óstöðugleika í þessum heimshluta og á aðgerðum Al Kaída í Írak.“

Þegar ákveðið var að hefja innrásina hafi ekki verið búið að fullreyna allar friðsamlegar leiðir til að afvopna Írak. Hernaðaraðgerðir hafi ekki verið óhjákvæmilegar.

„Á einhverjum tímapunkti hefði ef til vill orðið nauðsynlegt að hefja hernað í Írak, en í mars 2003 stafaði engin aðkallandi hætta af Saddam Hussein,” sagði Chilcot.

Blair er meðal annars harðlega gagnrýndur fyrir að láta George W. Bush Bandaríkjaforseti ráða ferðinni og gefa frá sér allar tilraunir til að fara hægar í sakirnar. Strax í júlí árið 2002, meira en hálfu ári áður en innrásin hófst, hafi hann sent Bush þessi skilaboð: „Ég mun standa með þér, hvað sem á dynur.”

Skýrslan, sem nefndin birti á vefsíðu sinni í gær, er engin smásmíði. Samtals 2,6 milljónir orða í tólf bindum. Samantektin ein er 150 blaðsíður að lengd.

Viðvaranir voru hunsaðar
Chilcot lávarður lýsti markmiðum og helstu niðurstöðum rannsóknarinnar í nokkrum orðum, þegar hann kynnti skýrsluna í beinni útsendingu í gærmorgun:

„Árið 2003 tók Bretland, í fyrsta skipti frá því í seinni heimsstyrjöldinni, þátt í innrás og allsherjar hernámi fullvalda ríkis. Það var há­alvarleg ákvörðun. Saddam Hussein var tvímælalaust hrottafenginn ­einræðisherra sem réðst á nágrannaríki Íraks, kúgaði og drap marga af íbúum eigin lands, og braut gegn skuldbindingum gagnvart öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

En spurningarnar, sem þessi rannsókn átti að svara, voru hvort það hafi verið rétt og nauðsynlegt að ráðast inn í Írak í mars árið 2003 og hvort Bretland hefði getað og átt að vera betur búið undir það sem í hönd fór.

Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að Bretland hafi kosið að ganga til liðs við innrásina í Írak áður en fullreynt var með friðsamlegar leiðir til afvopnunar. Á þeim tíma voru hernaðaraðgerðir ekki síðasta úrræðið.

Við höfum einnig komist að þeirri niðurstöðu að mat á alvarleika þeirrar hættu sem stafaði af gjöreyðingarvopnum Íraka hafi verið kynnt af sannfæringu sem ekki átti við rök að styðjast. Þrátt fyrir skýrar viðvaranir voru afleiðingar innrásarinnar vanmetnar. Öll skipulagning og undirbúningur fyrir það sem við tæki í Írak eftir að Saddam Hussein færi frá voru algerlega ófullnægjandi. Stjórninni tókst ekki að ná fram yfirlýstum markmiðum sínum.“
 
Raunveruleikinn kom á óvart
Tony Blair sendi í gærmorgun frá sér yfirlýsingu, þar sem hann bregst við skýrslunni með því að segja hana staðfesta að engum blekkingum hafi verið beitt:

„Skýrslan ætti að þagga niður í ásökunum um óheilindi, lygar eða blekkingar. Hvort sem fólk er sammála eða ósammála ákvörðun minni um að grípa til hernaðar gegn Saddam Hussein, þá tók ég hana í góðri trú og með hagsmuni þjóðarinnar í huga að því er ég taldi þá.“

Hann ávarpaði síðan fjölmiðla og sagði þá meðal annars:

„Ákvörðunin um að fara í stríð í Írak og koma Saddam Hussein frá völdum í bandalagi með meira en 40 löndum undir forystu Bandaríkjanna var erfiðasta, afdrifaríkasta og sársaukafyllsta ákvörðun sem ég tók á þeim tíu árum sem ég var forsætisráðherra Bretlands. Ég ber fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun, án undanbragða og afsakana,“ sagði Blair. Síðan viðurkenndi hann að raunveruleikinn sem mætti breskum hermönnum í Írak hafi verið allt annar en stjórnin hefði búist við:

„Álitsgerðir leyniþjónustunnar á þeim tíma sem haldið var í stríð, reyndust rangar. Eftirleikurinn varð fjandsamlegri, langdregnari og blóðugri en við höfðum nokkru sinni ímyndað okkur. Bandalagsríkin bjuggu sig undir ákveðnar grundvallarstaðreyndir en ráku sig á allt aðrar, og þjóðin sem við vildum frelsa og losa undan illsku Saddams varð í staðinn að fórnarlambi hryðjuverka milli andstæðra hópa.

Vegna alls þessa ber ég í brjósti dýpri sorg, iðrun og ósk um fyrirgefningu en þið munið ef til vill nokkurn tímann skilja eða geta trúað.“

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×