Erlent

Blair til Bush: „Ég er með þér sama hvað“

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmælendur stríðisins sem George Bush og Tony Blair.
Mótmælendur stríðisins sem George Bush og Tony Blair. Vísir/EPA
Bresk rannsóknarnefnd vegna þáttöku Breta í Íraksstríðinu komst að þeirri niðurstöðu að stríðið hefði ekki verið síðasta úrræðið. Aðrar lausnir hefðu ekki verið skoðaðar. Þá sagði John Chilcot, formaður nefndarinnar, að rök fyrir innrásinni árið 2003 hefðu verið byggðar á röngum upplýsingum sem ekki hefðu verið leiðréttar.

Bretar sendu 30 þúsund hermenn til Írak og 179 þeirra létu lífið. Stríðið hefur haft umfangsmiklar afleiðingar. Rannsóknarnefndin hefur verið að störfum í sjö ár, en verkefni hennar var að komast að því hvaða lærdóm væri hægt að draga af þátttöku Breta í stríðinu.

John Chilcot sagði í dag að nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að Bretar hefðu ekki skoðað alla friðsama valmöguleika í stöðunni. Þá hefðu þær upplýsingar sem lagðar voru fram um gereyðingavopn Írak ekki réttlætanlegar.

Hann sagði að hernaðaríhlutun hefði mögulega verið óhjákvæmileg á einhverjum tímapunkti, en svo hefði ekki verið árið 2003. Meirihluti Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna studdi þá áframhaldandi eftirlit varðandi gereyðingarvopn í Írak.

Afleiðingar innrásarinnar hefðu var vanmetnar og skipulag innrásaraðilanna hefði verið alfarið óviðunandi.

Nefndin komst einnig að þeirri niðurstöðu að þáverandi forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, hafi ofmetið hve mikil áhrif hann hefði getað haft á bandamenn sína í Bandaríkjunum. Í minnisblaði frá Blair til George Bush yngri, þáverandi forseta Bandaríkjanna, sagði Blair að hann myndi fylgja Bush, „sama hvað“.

Það minnisblað var skrifað árið 2002, áður en breska þingið hafði kosið um að fara í stríð.

Chilcot sagði að Tony Blair hefði verið varaður við því að þátttaka Breta í stríðinu myndi valda aukinni hættu þar í landi frá al-Qaeda. Þá hefði hann einnig verið varaður við því að möguleg gereyðingarvopn í eigu Írak hefðu getað endað í höndum hryðjuverkahópa.

Sjálfur segir Blair í tilkynningu að hann hafi tekið ákvörðunina í góðri trú um að innrásin væri til hags fyrir Bretland.

Hann þvertekur fyrir að fráfall Saddam Hussein hafi valdið þeirri aukningu á hryðjuverkum sem þekkist í dag.

Nefndin segir að Bretum hafi algerlega misheppnast að ná fram markmiðum sínum í innrásinni og að afleiðingar hennar gagnvart íbúum Írak hafi einnig verið vanmetnar. Minnst 150 þúsund Írakar létu lífið og rúm milljón þurfti að flýja heimili sín vegna aðgerða Breta.

Samkvæmt skýrslu nefndarinnar voru breskir hermenn ekki nægilega búnir fyrir átökin. Meðal annars skorti þá brynvarða bíla og þyrlur. Herinn þurfti að semja við vígahópa um að þeir myndu hætta að ráðast á breska hermenn og í staðinn yrði föngum sleppt. 

Þar að auki komst nefndin að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld Bretlands hefðu grafið undan Öryggisráðinu með aðgerðum sínum.

Í áðurnefndu minnisblaði Blair til Bush kemur einnig fram að eign gereyðingarvopna væri „réttlætingin“ fyrir stríði en raunverulegt markmið væri að koma Saddam Hussein frá völdum og koma á vestrænu lýðræði í Írak.

Gereyðingarvopn voru réttlætingin en lýðræði raunverulega markmiðið.
Útskýringarmyndband BBC um uppbygginguna að seinna Íraksstríðinu. Gerð skýrslunnar tók sjö ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×