Erlent

Daprasti ísbjörn heimsins dauður

Samúel Karl Ólason skrifar
Arturo er sagður hafa þjáðst af þunglyndi eftir að maki hans lést úr krabbameini.
Arturo er sagður hafa þjáðst af þunglyndi eftir að maki hans lést úr krabbameini. Vísir/AFP
Arturo, „heimsins daprasti“ ísbjörn, er allur. Hann var 30 ára gamall og eini ísbjörn Argentínu en Arturo vakti heimsathygli fyrir tveimur árum þegar dýraverndunarsinnar skoruðu á forsvarsmenn Mendoza dýragarðsins og forseta Argentínu að send Arturo í dýragarð í Kanada.

Tveimur árum áður hafði maki Arturo drepist vegna krabbameins og er ísbjörninn sagður hafa þjáðst af þunglyndi frá því. Þá fer hitinn í dýragarðinum reglulega yfir 40 gráður en laugin í búri Arturo var einungis um 40 sentímetra djúp og starfsfólk í garðinum þarf að halda henni kaldri með því að varpa stærðarinnar ísmolum í hana með reglulegu millibili.

Samkvæmt BBC var Mendoza dýragarðinum lokað í síðasta mánuði eftir að rúmlega 60 dýr höfðu drepist á undanförnum mánuðum. Embættismenn sögðu að dýrin hefði verið of mörg og að þau hefðu drepist vegna sjúkdóma.

Arturo var orðinn blindur á öðru auganu og lyktarskyn hans var nánast ekkert. Vegna aldurs var hann orðinn verulega veikur og samkvæmt dýragarðinum stóð til að svæfa hann áður en hann dó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×