Erlent

Á annað hundrað fórst í árás

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Eyðileggingin var mikil í Bagdad í gær. Þessi írakski slökkviliðsmaður mætti á svæðið til að slökkva elda og bjarga fórnarlömbum.
Eyðileggingin var mikil í Bagdad í gær. Þessi írakski slökkviliðsmaður mætti á svæðið til að slökkva elda og bjarga fórnarlömbum. Nordicphotos/AFP
Að minnsta kosti 125 féllu í sprengjuárás í Bagdad, höfuðborg Íraks, í gær. Þá særðust einnig um 150 manns í árásinni. Fimm létust í annarri árás norðan við höfuðborgina nokkru seinna. Stór hluti hinna látnu voru börn.

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki lýstu fljótlega yfir ábyrgð á árásinni en lögreglan í Bagdad greindi frá því að bílsprengja hefði sprungið á verslunargötu í Karrada-hverfi borgarinnar. Fjöldi fólks var saman kominn á götunni til að rjúfa saman föstu ramadanmánaðarins. Sprengingin kveikti mikið bál og skemmdust byggingar á svæðinu verulega. Slökkvilið mætti fljótlega á svæðið og slökkti elda ásamt því að bjarga fólki úr byggingunum sem voru meðal annars kaffihús og líkamsræktarstöð.

„Þetta er forkastanlegur heigulsháttur sem á sér fáar hliðstæður. Það að beina spjótum sínum að friðsömum borgurum á lokadögum hins helga mánaðar ramadan á meðan þeir búa sig undir hátíðisdaginn Eid-ul-Fitr er forkastanlegt,“ sagði Ján Kubiš, talsmaður aðalritara Sameinuðu þjóðanna og vísaði til Eid-ul-Fitr, dagsins eftir ramadan.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, fékk ekki góðar móttökur frá viðstöddum þegar hann mætti á svæðið í gær og hrópuðu viðstaddir ókvæðisorð að forsætisráðherranum. Einnig var bílalest forsætisráðherrans grýtt með smásteinum.

Ahmed Maher, fréttamaður BBC í Bagdad, sagði ástæðu reiðinnar vera aðgerðarleysi forsætisráðherrans. Maher sagði tölvuþrjóta hafa brotist inn á vefsíðu innanríkisráðuneytisins og sett mynd af dánu barni á forsíðu ráðuneytisins ásamt teikningu af gervisprengjuleitarvél. Sagði Maher slíkar gagnslausar vélar enn í notkun víðs vegar um Bagdad.

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki fara enn með völdin á stórum landsvæðum í norðvesturhluta Íraks, til að mynda í Mósúl, næstfjölmennustu borg Íraks. Hins vegar vann írakski herinn borgina Fallúdsja af hersveitum Íslamska ríkisins í síðustu viku.

Sprengjuárásin í Karrada-hverfi er sú mannskæðasta í Írak það sem af er ári en íslamska ríkið hefur gert sjö aðrar stórar árásir frá áramótum. Til að mynda voru þrjátíu myrtir í tveimur sprengjuárásum í Bagdad 9. júní og 93 í bíl­sprengingu í Sadr-hverfi Bagdad í maí.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×