Erlent

Minnst 125 látnir eftir árás ISIS í Baghdad

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Eyðileggingin var gífurleg.
Eyðileggingin var gífurleg. vísir/epa
Í það minnsta 125 eru látnir og 150 særðir eftir sprengingu í Baghdad, höfuðborg Írak, í gærkvöld. Íslamska ríkið hefur lýst því yfir að samtökin hafi skipulagt árásirnar. BBC segir frá.

Sprengju hafði verið komið fyrir í bíl á fjölfarinni götu. Margt var um manninn á verslunargötunni þar sem að föstumánuðurinn Ramadan stendur nú yfir. Fjölmargir voru því að versla. Flestir hinna látnu eru síja múslimar.

Forsætisráðherra Írak, Haider al-Abadi, heimsótti vettvang sprengingarinnar í dag en þar tók æstur múgur á móti honum. Talsverðrar óánægju gætir vegna þess hvernig tekið hefur verið á hryðjuverkasamtökunum.

Önnur sprengja sprakk í kringum miðnætti á svæði norður af höfuðborginni. Þar létust fimm manns.

Árásirnar eru þær mannskæðustu það sem af er ári. Þær koma skömmu eftir að stjórnarherinn náði yfirráðum í Fallujah á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×