Innlent

Fimmtán þúsund starfsmönnum menntakerfis Tyrklands vikið úr starfi

Birgir Olgeirsson skrifar
Rúmlega fimmtán þúsund starfsmönnum menntakerfis Tyrklands hefur verið vikið úr starfi. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC en þar segir að þetta sé liður í hreinsun forsetans Recep Tayyip Erdogan á embættismannakerfi Tyrklands eftir valdaránstilraunina síðastliðinn föstudag.

Menntamálaráðuneyti Tyrklands hefur sakað þessa starfsmenn um að tengjast klerkinum Fethullah Gulen sem dvelur í Bandaríkjunum. Tyrknesk yfirvöld hafa sakað um að standa að baki valdaránstilraunarinnar en Gulen hefur staðfastlega neitað því.

Þá hefur menntamálaráðuneytið boðað að 1.500 deildarforsetum háskóla verði vikið úr starfi. Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim hefur heitið því að grípa til aðgerða gegn stuðningsmönnum Gulen.

Tyrknesk yfirvöld hafa staðið að hreinsunum í hernum, dómskerfinu, lögreglu og hjá opinberum starfsmönnum vegna valdaránstilraunarinnar. Nú þegar hafa 6.000 meðlimir hersins verið handteknir og bíða á þriðja tug hershöfðingja réttarhalda. 9.000 lögreglumönnum hefur verið vikið úr starfi og 3.000 dómurum. Þá hafa rúmlega 250 starfsmenn forsætisráðuneytisins verið reknir.

Þá hefur fjölmiðlaeftirlitið í Tyrklandi afturkallað leyfi 24 útvarps- og sjónvarpsstöðva sem eru sakaðar um tengsl við Gulen.

232 féllu í valdaránstilrauninni á föstudag og 1.500 eru særðir. 


Tengdar fréttir

Gülen stjórnar hreyfingu sinni úr útlegð

Erdogan Tyrklandsforseti og klerkurinn Fetúla Gülen voru í eina tíð bandamenn. Nú eru aðrir tímar og Erdogan segir Gülen hafa staðið á bak við valdaránstilraun hersins í Tyrklandi. Gülen segir ekkert hæft í því. Herferð Erdogans gegn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×