Erlent

Johnson kveðst alþjóðasinni

Guðsteinn Bjarnason skrifar
„Hann var frábær. Hann sagðist vera alþjóðasinni, ekki þjóðernissinni,“ sagði einn af utanríkisráðherrum Evrópusambandsins á fundi í Brussel í gær um Boris Johnson, hinn nýja utanríkisráðherra Bretlands.

Þetta hafði blaðið Wall Street Journal eftir ráðherranum, en nafngreindi hann þó ekki.

Johnson mætti í gær á sinn fyrsta fund með utanríkisráðherrum hinna Evrópusambandsríkjanna í Brussel. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var einnig á fundinum.

Johnson sagði Bretland ætla sér áfram stórt hlutverk við stefnumótun í Evrópu, þrátt fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu.

Federica Mogherini, utanríkismálafulltrúi Evrópusambandsins, gerði honum hins vegar grein fyrir því að Evrópusambandið þurfi ekki að fara að óskum Breta, þótt samstarf verði áfram vel þegið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×