Skoðun

Guð blessi réttarríkið!

Sigurður Einarsson skrifar
Á síðustu vikum hefur birst hörð gagnrýni á íslenska dómsstóla frá nokkrum málsmetandi lögfræðingum úr ólíkum áttum á ýmsum vefmiðlum.  Eins og ég hef upplifað á eigin skinni virðist stækkandi hópur lögmanna gera sér grein fyrir því fársjúka dómskerfi sem hér er við líði.  Það er viðkvæmt að gagnrýna dómsvaldið og fáir lögmenn sem hætta sér inn á þá braut.

Mig langar að hugleiða mína reynslu í nokkurskonar samantekt á þeim viðtölum og pistlum sem ég hef lesið í vikunni og endurspegla valdníðslu siðlausra dómara sem virðast vera ósnertanlegir, svífast einskis og dæma menn útfrá fyrirframgefinni skoðun sinni fremur en þeim lögum sem landið byggir á.   Þórhildur Sunna Ævarsdóttir mannréttindalögfræðingur skrifaði grein í Kvennablaðið fyrir rúmu ári þar sem hún fjallar um grundvallaratriði réttaríkisins;

„Við viljum öll búa í réttarríki.  Samkvæmt skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna felst réttarríkið fyrst og fremst í því að öllum beri að fylgja lögum, líka ríkinu. Eða reyndar, sérstaklega ríkinu. Hugmyndin um réttarríkið (rule of law) á rætur sínar að rekja í hefðir og sögu fjölda menningarheima langt aftur í aldir. Réttarríkið er í raun samofið sögu þess að mennirnir hófu að setja lög til þess að stjórna samfélögum sínum. Það mætti líta á hugmyndafræði réttarríkisins sem ákveðið verkfæri til þess að beita gegn valdníðslu stjórnvalda. Verkfæri sem mannskepnan hefur þróað með sér í árþúsundir.“

Maður kann að spyrja sig hvort Ísland sé réttarríki útfrá skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna.  Ekki síst í því ljósi að nú hafa aldrei verið eins mörg mál til rannsóknar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) gagnvart íslenska ríkinu og réttarkerfinu hér eins og nú.  Undanfarin 10 ár hefur ríkinu borist frá MDE, frá engri fyrirspurn og upp í tvær fyrirspurnir á ári. Árið 2015 bárust fjórar fyrirspurnir og það sem af er árinu 2016 hefur MDE beint fimm fyrirspurnum til íslenska ríkisins vegna mála sem MDE rannsakar.  Frá árinu 1959 hefur MDE borist 196 kærur gegn íslenska ríkinu en aðeins 16 mál fengið efnismeðferð en íslenska ríkið hefur í öllum tilvikum tapað málunum og samið sig frá þremur málum en fengið 13 dóma þar sem staðfest var að Hæstiréttur Íslands hafði brotið á mannréttindum.  

Í ljósi þess hversu mörg mál MDE hefur til rannsóknar, er eðlilegt að spyrja hvað hefur brostið? Eru dómarar og saksóknarar komnir langt útaf sporinu, kæra og dæma eftir stemmningu samfélagsins eins og einn þeirra gaf til kynna fyrir skemmstu.

Ég er einn þeirra sem fékk fangelsisdóm í Al Thani málinu þar sem ljóst er að bæði ákæruvaldið og dómstólar brutu á mörgum grundvallar mannréttindum okkar sakborninga í  þeim tilgangi að veita okkur þunga dóma í þessu fyrsta máli sem dæmt var í og tengdist bankahruninu.  Ég veit að MDE mun staðfesta hvernig brotið var á sakborningum í málinu að leikslokum.  Hér var stofnað Embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka bankahrunið í þeim tilgangi að... „skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar,“ eins og fram kemur í greinargerð með lögunum nr. 135/2008 um stofnun embættisins. 

Þórhildur Sunna kemur inn á bann við afturvirkni laga í grein sinni í Kvennablaðinu um réttaríkið:

„1.     Öll lög verða að vera opinber og skýr, þau mega ekki vera afturvirk

Til þess að hægt sé að framfylgja lögum og reglum verða þau að vera opinber og aðgengileg. Að sama skapi verða lög og reglur að vera skýr, fólk verður að skilja til hvers er ætlast af þeim. Lög sem banna vissa hegðun eða hafa önnur neikvæð áhrif á líf fólks eiga ekki að geta gilt aftur í tímann, enda tímavélar ekki aðgengilegar almenningi. Bannið við afturvirkni laga er sérstaklega mikilvægt í refsirétti. Ríkið getur ekki réttlætt það að refsa fólki fyrir verknað sem ekki var refsiverður með lögum þegar hann átti sér stað. Þessi lögmál gilda jafnt um hvers kyns valdbeitingu yfirvaldsins, hvort sem hún er í formi lagasetningar, reglugerðar ráðherra, tilskipana borgar- eða bæjaryfirvalda eða einstakra stofnana eða embættismanna sem hafa boðvald í einhverri mynd.“

Stofnun Embættis sérstaks saksóknara var fljótfærnislegt lýðskrum og kúltúrinn hjá embættinu var líkastur því sem þekktist í villta vestrinu eða í amerískum löggumyndum frá fyrsta degi.  Það átti og mátti gera hvað sem var til að ná „bankabófunum“ var viðhorf hlutlægra rannsakenda hjá Sérstökum saksóknara sem eiga að gæta hlutleysis við rannsókn mála.  Starfsmenn Sérstaks saksóknara voru aldrei hlutlausir í rannsóknum sínum þvert á móti þá leyndu þeir gögnum sem hefðu getað sýnt fram á sakleysi sakborninga, brutu á réttindum manna með því að hlera símtöl sakborninga við lögmenn sína.  Auk þess voru lykilvitni ekki kölluð fyrir dóm þar sem ljóst var að framburður þeirra myndi nýtast vörninni í málinu betur en saksóknara. 

Hámark lágkúrunnar var í mínum huga þegar Sérstakur saksóknara gaf út „Red Notice“ á mig sem er alþjóðleg handtökuheimild með þann tilgang að handtaka stórhættulega glæpamenn eða hryðjuverkamanna hvar og hvenær sem er.  Hann misnotaði aðstöðu sína og völd þó hann vissi vel að engin hætta stafaði af mér og ég væri staddur á heimili mínu. Úrræðið nýtti hann sér engu að síður sem tækifæri til að baða sjálfan sig í sviðsljósinu.  Tilvera embættisins var vissulega háð því samkvæmt reglunum að viðhalda reiði samfélagsins og láta bankamenn líta út fyrir að vera að vera stórhættulega glæpamenn að ósekju.

Mannréttindalögfræðingurinn Þórhildur Sunna segir enn fremur í grein sinni í Kvennablaðinu:

„Lögreglan og ákæruvaldið mega ekki hafa of víðtækar heimildir til að ákveða hvern skal handtaka/ákæra og fyrir hvaða glæpi.  Löggæsluyfirvöld ættu ekki að hafa frjálsar hendur til þess að ákveða að sumum glæpum verði fylgt eftir en öðrum ekki,“

„Ríkisstjórn, Alþingi, lögregla eru allt stofnanir sem sækja uppruna sinn í lög. Vald þeirra og umboð er að finna í stjórnarskrá og lögum. Þannig er ekki nóg að ríkisvaldið brjóti ekki lögin heldur verða aðgerðir þess alltaf að byggja á skýrri heimild til þeirra aðgerða í lögum. Þessi regla er kölluð lögmætisreglan og hún gildir um alla arma ríkisvaldsins, þ.e.a.s. framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og dómsvaldið.“

Í nýjustu útgáfu Stundarinnar er greinargóð úttekt á hruni réttaríkisins á Íslandi.  Það hefur reyndar komið á óvart hversu lítið aðrir fjölmiðlar hafa veitt þeim stórfréttum sem þar koma fram athygli. Umfjöllun Stundarinnar er merkileg fyrir margar sakir. Þar er afhjúpaður sjúkleiki dómskerfisins sem ætti samkvæmt þessu að vera í gjörgæslu stjórnvalda sem geta lítið gert vegna sjálfstæðis sjúklingsins sem er í fullkominni afneitun gagnvart sjúkleikanum. Nánast útilokað er að svipta hann sjálfræðinu þó fársjúkur sé. Þarna er verið tala um eina grunnstoð samfélagsins sem dómsvaldið er og þær alvarlegu brotlamir sem kerfið býr við. 

Ég birti fyrir tveimur vikum mynd á Facebooksíðu minni sem endurspeglar vel siðlaust dómskerfi.  Myndin sýnir vanhæfi Árna Kolbeinssonar hæstaréttardómara sem var dómari í Al Thani málinu en fjölskylda hans hafði bæði fjárhagslega- og faglega hagsmuni af niðurstöðu málsins.  Þetta er ein af þeim ábendingum sem MDE rannsakar nú.

Þórhildur Sunna fjallar meðal annars um sjálfstæði dómara í grein sinni í Kvennablaðinu:

„Lög um sjálfstæði dómara, strangar faglegar kröfur um skipan þeirra, starfsöryggi og fastar fjárveitingar eru allt liðir í því að tryggja sjálfstæði dómara. Reglur um hæfi dómara sem og annarra sem fara með úrskurðarvald í einstaka málum eiga að tryggja að hagsmunaárekstrar standi ekki í vegi fyrir hlutlausri og réttlátri málsmeðferð.“

„Lög eiga ekki að fara í manngreinarálit og sjálfstæði og hlutleysi dómstóla er ætlað til þess að tryggja að allir fái réttláta málsmeðferð fyrir dómi sama hvaðan þeir koma, hvernig þeir líta út, hvern þeir þekkja eða hvaða orðspor þeir hafa.“

Í umfjöllun Stundarinnar er m.a. viðtal við Elínu Sigrúnu Jónsdóttur lögfræðing en hún hætti sem framkvæmdastjóri dómstólaráðs árið 2011 eftir að hafa gengt embætti í rúman áratug. Hún segir m.a:

„Í Noregi kynntist ég stórkostlegri stjórnsýslu þar sem fagleg vinnubrögð eru í fyrirrúmi. Á þessum tíma höfðu Norðmenn miklar áhyggjur af íslensku dómstólakerfi og hvernig tekist yrði á við hrunmálin. Þeir áttu ekki til orð þegar ég sagði þeim hvernig dómstjórar og dómarar væru valdir á Íslandi og hvernig stjórnsýsla dómstólanna hérlendis virkar, þeim féllust hreinlega hendur og buðust til að veita Íslendingum alla þá aðstoð og ráðgjöf sem við þyrftum á að halda. Ég gerði mér grein fyrir því að tilboð norsku dómstólanna var gríðarlega mikils virði fyrir þá íslensku,“ segir Elín.

Norðmenn höfðu samkvæmt mínum heimildum einna helst áhyggjur af stofnun Embættis sérstaks saksóknara til að rannsaka bankahrunið og bentu á að mikilvægt væri að í landinu er til staðar kerfi, lög og reglur sem gilda ættu fyrir öll mál sem koma til rannsóknar.  Með því að stofna sérstaka rannsóknardeild var í raun verið að brjóta jafnræðisreglur og hætt við því að saksóknarar gættu ekki hlutleysis við meðferð mála eins og þeim ber að gera.  Norðmenn gættu sérstaklega að því að mál fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik fengi enga sérmeðferð en hann drap 77 manns bæði í sprengjuárás í miðborg Oslóar og með skotvopni í Útey 22. júlí 2011. 

Þetta einstaka og skelfilega mál var rannsakað í því kerfi sem var til staðar og þeim lögum sem gilda í landinu. Ekki kom til greina að stofna embætti til að „sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar.“ Dæmt var samkvæmt þeim lögum sem voru í landinu og hlaut Breivik 21 árs fangelsisdóm sem var hámarksrefsing samkvæmt þeim lögum sem gilda í Noregi.  Án þess að ég ætli með nokkru móti að bera þessi gjörólíku mál saman þá hefur Hæstiréttur dæmt fjóra menn í samtals 18 ára fangelsi í Al Thani málinu sem byggist á viðskiptum sem enginn tapaði krónu á nema hans hátign Al Thani sem sjálfur hefur staðfest fyrir saksóknara að um raunveruleg viðskipti var að ræða en ekki sýndargjörning eins og saksóknari hefur haldið fram. Í frétt RÚV frá því að réttarhöldin fóru fram segir:

„Hreiðar gekk á saksóknara og spurði hvort saksóknarinn væri ekki sammála því að Kaupþing hefði staðið betur eftir viðskiptin. Saksóknarinn benti á að Kaupþing hefði fallið skömmu eftir viðskiptin en viðurkenndi að vissulega væri þrotabú bankans betur sett en ef viðskiptin við Al Thani hefðu ekki farið fram.“

Að gefnu tilefni vitna ég aftur í grein mannréttindalögfræðingsins Þórhildi Sunnu:

„Mikilvægi mannréttinda felst einna helst í því að þau gilda jafnt um alla, einnig þá sem sumum kunna að þykja óæskilegar eða vondar manneskjur.  Það vill oft gleymast að þó svo að fólk sé ásakað um viðurstyggilega hegðun og jafnvel sakfellt fyrir alvarlega glæpi á það ennþá rétt á sanngjarnri málsmeðferð.“

Tengsl.
Elín Sigrún Jónsdóttir fékk ekki góðar viðtökur þegar hún bar tilboð Norðmanna um aðstoð fyrir dómstólaráð eins og fram kemur í fréttaskýringu Stundarinnar: „Ráðsmenn í dómstólaráði lýstu sig andstæða tilboði Norðmanna og voru ósammála Elínu um að Íslendingar þyrftu utanaðkomandi aðstoð til að bæta stjórnsýslu dómstólanna. Eftir þetta segist Elín hafa orðið fyrir einelti af hálfu tveggja ráðsmanna, þeirra Benedikts Bogasonar og Helga I. Jónssonar. Báðir eru hæstaréttardómarar í dag,“ segir Elín bætir við  „Gerendur hlógu og flissuðu á fundum ráðsins að tillögum mínum og hugmyndum um að þiggja ráð norsku dómstólanna,“ segir hún og bætir við: „Ég var tortryggð. Hugmyndir mínar og tillögur voru smánaðar, ég var svipt málfrelsi  á fundum dómstólaráðs og mér var hótað uppsögn.“

Í fréttaskýringu Stundarinnar er auk þess rætt við Áslaugu Björgvinsdóttir sem ákvað að láta af embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur í fyrra þegar það rann upp fyrir henni að hún treysti ekki lengur íslensku dómskerfi. Áslaug telur að alvarlegir misbrestir séu á stjórnsýslu og innra eftirliti dómsvaldsins á Íslandi:

„Það er mikilvægt að geta verið stoltur af vinnustaðnum sínum. Eftir að hafa kynnst stjórnun og svo fjölmörgum misbrestum í starfsemi héraðsdómstólanna var staðan einfaldlega sú að ég sem borgari treysti ekki lengur dómskerfinu. Ég hef allt aðrar hugmyndir um metnað og fagleg vinnubrögð dómsvalds og deili hvorki ráðandi sýn né gildum innan dómskerfisins. Þegar stjórnendur beina dómurum í þveröfuga átt þá var það umhverfi sem ég gat ekki sætt mig við. Ég gat hvorki verið stolt af Héraðsdómi Reykjavíkur né stolt af því að vera dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Það er réttaröryggismál og grundvallarforsenda réttarríkisins að dómstólar fari að lögum í einu og öllu. Ef sú er ekki raunin geta borgararnir, hvorki einstaklingar né fyrirtæki, treyst því að dómarar fari alltaf að lögum. Þess eru ítrekuð dæmi að stjórnendur íslenska dómsvaldsins telja að þeir eigi val um það hvort og hvaða lögum þeir fylgja með vísan til sjálfstæðis dómsvaldsins. Það var niðurstaðan að ég vildi ekki tilheyra slíku dómsvaldi."

Síðar í viðtalinu segir hún;

„Það hefur ítrekað sýnt sig að enginn opinber aðili telur sig til þess bæran eða treystir sér til að skoða og taka á meintum ólögmætum stjórnarháttum dómstólanna eins og nú síðast nýsamþykkt lög innanríkisráðherra um dómstóla sýna. Þrátt fyrir vitneskju um misbrestina er það niðurstaða löggjafans og ríkisstjórnarinnar að viðhalda kerfi þar sem útilokað er fyrir starfsmenn dómskerfisins og dómara að afhjúpa óvandaða og ólögmæta stjórnarhætti innan dómsvaldsins. Með slíku kerfi er grafið undan nauðsynlegu eftirliti og ábyrgð dómara og stjórnenda dómsvaldsins sem er forsenda lýðræðislegra stjórnarhátta, sjálfstæðs, óháðs og hlutlauss dómsvalds og þar með réttarríkisins. Grundvallarforsendum þess að allir séu jafnir fyrir lögum og geti treyst því að ekki sé í boði að sveigja eða brjóta lög s.s. til að hlífa fólki í efri lögum samfélagsins á kostnað borgaranna, réttlætisins, trúverðugleika og trausts í samfélaginu.“

Ég ætla að ljúka þessari samantekt minni á hruni réttaríkisins á grein sem Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og fyrrum dómari við Hæstarétt Íslands, skrifaði og birtist á Pressunni 7. júlí s.l.

„Ég hef haft orð á því áður. Það tímabil í starfsemi Hæstaréttar Íslands, sem nú stendur yfir, verður þegar fram í sækir talið tímabil mestu niðurlægingar í sögu réttarins. Því valda framar öðru dómar réttarins í sakamálum, sem höfðuð voru eftir hrunið mikla, gegn ýmsum borgurum fyrir að hafa brotið af sér með refsiverðum hætti í aðdraganda efnahagsáfallanna haustið 2008. Það er eins og dómstóllinn hafi tekið sér fyrir hendur að friða almenning, sem hefur haft uppi sakir á hendur mörgum þessara manna og þá einkum þeim sem falla undir það að vera taldir „útrásarvíkingar“. Við þessa starfsemi réttarins hafa sakborningar ekki notið þess réttar sem meginreglur segja að allir sakaðir menn skuli njóta. Þeir eru bara dæmdir án frambærilegra forsendna og þá eftir atvikum til margra ára fangelsisvistar.“

Jón Steinar líkur svo grein sinni með þessum orðum:

„Það hefur meðal annars vakið athygli að margir menn fagna þessum dómum. „Þeir eiga ekkert betra skilið.“ Á bak við slíkar athugasemdir er greinileg fáviska um þau skilyrði sem nauðsynlegt er að uppfylla til þess að unnt sé að sakfella menn fyrir refsiverða háttsemi og dæma þá til fangelsisvistar. Allir Íslendingar ættu að skilja að dómstólastarfsemin þarf að lúta þeim kröfum sem gilda í réttarríkjum. Enginn veit hvenær hann sjálfur þarf að eiga undir slíku. Það er því mikil skammsýni að fagna nú þessum ódæmum. Það gera samt jafnvel málsmetandi menn og hrósa þá dómstólnum fyrir að „þora“ að kveða upp svona dóma. Og dómstóllinn virðist láta stjórnast af þessum lágreistu hvötum. Því miður.“

Ljóst er að vandinn liggur hjá innanríkisráðherra sem verður að opna augun við vandanum og bregðast við með viðeigandi úrræðum.  Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig ráðherra ætlar að bregðast við þessum málafjölda MDE og auknu álagi á starfsmenn ráðaneytisins vegna þeirra. Hvernig ætlar hún að bregðast við harðri gagnrýni úr mörgum ólíkum áttum sem staðfesta vandamál dómkerfisins eins og fjöldi mála MDE staðfestir nú. 

Maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi engar áhyggjur af meðferð mála tengdum bankahruninu sem verða mörg á dagskrá dómstóla nú í haust.   Mun hún bregðast við þar sem nú liggja ekki einungis ásakanir um að ekki hafi verið farið að lögum við meðferð bankahrunsmála heldur alvarleg rannsókn MDE á meðferð mála sem dæmt hefur verið í vegna bankahrunsins? Það blasir við að hún verður að bregðast við með afgerandi hætti í þessu ljósi.  Ætlar hún að láta forseta hæstaréttar slá heimsmet í mannréttindabrotum með dómum sem standast ekki lögin sem réttarríkið Ísland byggir á og þurfa að samræmast alþjóðlegum mannréttindum?

Má ekki örugglega búast við því að hún muni skilyrðislaust senda forseta hæstaréttar og héraðssaksóknara í leyfi á meðan þessi mál eru í rannsókn hjá MDE? Bera ríkisstarfsmenn aldrei ábyrgð? Bankamaður sem er til skoðunar hjá eftirlitsstofnunum yrði umsvifalaust settur í leyfi. Það eru miklir brestir í kerfinu ef þessir menn verða ekki sendir í leyfi í ljósi þeirrar stöðu sem nú er komin upp og ögrar Íslandi sem réttarríki. 

Nú er mikilvægt að gera allsherjar uppstokkun á dómarahópnum.  Það blasir við að þeir dómarar sem komu að þeim málum sem nú eru til rannsóknar hjá MDE eru óhæfir til að dæma í málum tengdum bankahruninu á meðan á rannsókninni stendur.  Mörg slík mál eru á dagskrá dómstólanna nú í haust þegar átta ár verða liðin frá bankahruninu og enn eru tugir vel menntaðra manna á besta aldri sem bíða í óvissunni með fjölskyldum sínum um hvort eða hvenær þeir fari í fangelsi.  Á sama tíma er að koma í ljós gríðarlegur hagnaður ríkissjóðs af bankahruninu m.a. vegna verðmætra eigna gömlu bankanna.  Nú er mál að linni.

Tilvísanir í heimildir af eftirfarandi vefsíðum:

https://kvennabladid.is/2015/05/07/rettarrikid/

https://stundin.is/frett/domarinn-sem-haetti-ad-treysta-domskerfinu/

https://stundin.is/frett/vildi-thiggja-adstod-nordmanna-og-kvedst-hafa-ordi/

https://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Jon_Steinar/bara-a-islandi

/g/2016160709420

https://www.ruv.is/frett/throtabuid-fekk-35-milljarda-fra-al-thani

 

 

 




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×