Erlent

Tala látinna hækkar: Um þrjú þúsund hermenn handteknir í Tyrklandi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
161 óbreyttur borgari lét lífið í átökunum í Tyrklandi í nótt. Þá létu 104 uppreisnarmenn lífið þegar hluti tyrkneska hersins reyndi að fremja valdarán á meðan Tacip Erdogan forseti var í fríi á Marmaris.

Tilraunin misheppnaðist, stjórnvöld hafa náð tökum á ástandinu samkvæmt erlendum fjölmiðlum og 3000 hermenn hafa verið handteknir og 2700 dómarar reknir fyrir meint tengsl við valdaránið.

Háttsettir menn í hernum hafa verið handteknir og sakaðir um að hafa tekið þátt í aðgerðunum. Tyrkneska þingið kom saman í dag og var þingfundur með sérstakara móti. Leiðtogi þeirra fjögurra flokka sem sæti eiga á þingi héldu sína ræðuna hver þar sem þeir fordæmdu tilraunina til valdaráns. Þá hófst þingfundur á mínútuþögn auk þess sem þjóðsöngur Tyrkja var leikinn í þingsal.

Binali Yildirim, forsætisráðherra landsins,  sagði í ávarpi sínu í þingsal að þetta væri merkilegt augnablik í sögu tyrkneskra stjórnmála og vísaði til þverpólitískrar samstöðu þingsins.

Reuters greinir frá því að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi fordæmt aðgerðirnar og ítrekað mikilvægi þess að þeir brotlegu, sem saksóttir verða fyrir landráð, fái réttláta málsmeðferð. Hún sagði Berlín standa með þeim sem verja lýðræði og lagabókstafinn.

„Þetta er harmleikur, það hversu margir létust í þessari tilraun til valdaráns,“ sagði Merkel. „Blóðsúthellingum í Tyrklandi verður að linna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×